Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Krafa um þvagsýni stenst ekki

Mynd með færslu
 Mynd:
Óvíst er að Fljótsdalshérað og fleiri sveitarfélög á Austurlandi geti neitað fólki um fjárhagsaðstoð vegna þess að það sé í fíkniefnaneyslu. Úrskurður um að krafa um þvagsýni brjóti gegn persónuvernd gæti neytt sveitarfélögin til að endurskoða hvernig þau taka á málum fíkla.

Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs nær einnig til Fljótsdalshrepps, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðar Eystra, Djúpavogs og Vopnafjarðar. Reglur hennar heimila að neyta um fjárhagsaðstoð sé viðkomandi í neyslu áfengis eða annara vímuefna. En í staðinn býðst félagsþjónustan til að greiða kostnað og dagpeninga í meðferð. Þannig notar Félagsþjónustan neitun um fjárhagsaðstoð sem einskonar hvata til að fíkillinn leiti sér aðstoðar.

Fleiri sveitarfélög hafa sama háttinn á en ekki öll. En þegar grunur vaknar um að fíkill leyni neyslu getur þurft að sanna eða afsanna. Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs krafðist þvagsýnis frá manni sem grunaður var um neyslu. Hann neitaði og kærði málið til Persónuverndar sem úrskurðaði að slík söfnun þvagsýna bryti gegn lögum um persónuvernd.

Bæjarstjóri Fljótdalshéraðs, Björn Ingimarsson, segir félagsþjónustuna ætla að endurskoða bæði verklag og heimild til að neyta um fjárhagsaðstoð vegna neyslu. Hún hefur verið hluti af hugmyndafræði félagsþjónustunnar. 

„Hugsunin hefur einmitt verið sú að hafa tækifæri til að beina viðkomandi inn á úrræðabraut. Þau eru nokkur dæmin um að félagasþjónustan hafi aðstoðað fólk í vanda fjárhagslega svo fremi sem viðkomandi hafa þá samþykkt að leita sér aðstoðar“, segir Björn.

Þannig þýði neysla ekki sjálfkrafa að klippt sé á fjárhagsaðstoð. Erfitt er hinsvegar að taka á málum þegar viðkomandi vill leyna neyslu og neitar að fara í meðferð. Björn segir að æskilegt hefði verið að málið færi til úrskuðarnefndar um félagsþjóustu og húsnæðismál.