Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Krafa á tónlistarkonur að vera kynbombur

Mynd: Rúv / Rúv

Krafa á tónlistarkonur að vera kynbombur

01.09.2018 - 13:00

Höfundar

Fyrr í þessum mánuði kom út fyrsta plata GDRN, Hvað ef? GDRN er annað sjálf Guðrúnar Ýrar Eyfjörð, 22 ára Mosfellsbæjarmeyjar sem áður lærði á fiðlu og djasssöng, en byrjaði GDRN-verkefnið fyrir ári síðan.

Síðan þá hefur velgengnin hefur verið hröð: Airwaves, Solstice, stóra sviðið á Menningarnótt, tilnefning sem bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum, plötusamningur við Öldu Music, og nú fyrsta breiðskífan.

Þetta er 10 laga breiðskífa með inngangsstefi, uppfull af tregablandinni og poppaðri r'n’b tónlist. Rödd söngkunnar er loftkennd og sefandi, hún rennur yfir ofursvala letilega hip-hop takta hljóðupptökustjóratvíeykisins Ra:tio. Lögin eru tilfinningaþrungin – fjalla um það sem popptónlist hefur gert frá upphafi, ást, rómantík, losta. Það er þó yfirleitt hyldjúpur tregatónninn í röddinni sem dregur mann inn, viðfang textanna er fjarverandi, ýmist í fortíð, nútíð eða framtíð, þetta er söknuður, löngun, þrá. Lagatextarnir segja sína sögu: „Það sem var“, „Án mín", „Ein“, „Hver ert þú?“, „Þarf þig“, „Komdu yfir“, „Treystu mér“, „Hvað ef?“

Finnst gaman að mála og teikna

„Ég er ekki alveg að segja hlutina beint út, er meira að tala undir rós. En jú, það er gott að lýsa þessu sem svolítilli fjarveru. En svo hefur líka verið gert mikið grín að mér að ég sé að spyrja endalausra spurninga,” segir Guðrún. „En maður getur oft komið hlutunum fyrir í spurningu.”

Framan á plötunni er ljósmynd af Guðrúnu þar sem hún er með málningu framan í sér, en einnig hefur verið litað ofan í ljósmyndina, blá lína sem kallast kannski á við blúsinn í rödd söngkonunnar. „Mér finnst oft, og án þess að vera að með neina fordóma gagnvart því þá finnst mér oft að tónlistarkonur þurfi að framreiða sig sem sexý og sem kynbombur. Það er alveg gott og blessað, en ég er ekki alveg þar. Mig langaði að gera eitthvað sem væri aðeins meira í stíl við mig. Ég er voða listræn og finnst gaman að mála, spila tónlist og teikna. Anna Maggý [ljósmyndari] kom með þessa hugmynd og mér fannst þetta hundrað prósent málið.”

 

Mynd með færslu

Tengdar fréttir

Langþráð plata komin út

Popptónlist

Valdeflandi og vel svalt