Kötturinn Grímkell sat fastur í drullu

20.04.2018 - 08:00
Köttur að veiða.
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki neitt Mynd: RÚV
Slökkviliðið og lögreglan voru kölluð út í gærkveldi til að bjarga kettinum Grímkeli sem fastur var á lítilli eyju í syðstu tjörninni í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Grímkell var fastur í drullu og óð lögreglumaður út í tjörnina til þess að reyna að bjarga honum en festist þá líka í drullunni.

Þá var slökkviliðið kallað út og mættu fjórir slökkviliðsmenn á staðinn. Einn þeirra óð út í tjörnina en festist líka. Þá var gripið til þess ráðs að setja stiga yfir á eyjuna og fór slökkviliðsmaður eftir honum að kettinum. Grímkell var illa haldinn og vældi mikið. Litlu munaði að illa færi því þessi slökkviliðmaður festist líka en náði að losa sig. Hann og Grímkell komust síðan óskaddaðir af eyjunni. Sá sem tilkynnti um svaðilför Grímkels tók að sér að fara með hann heim til sín. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV