Kostnaðurinn 148 milljónir á ári

Mynd með færslu
 Mynd:

Kostnaðurinn 148 milljónir á ári

17.11.2014 - 16:42
Hormónaraskandi efni eru talin hafa ýmis neikvæð áhrif á heilsu manna og dýra. Meðal annars minnkandi frjósemi, aukna tíðni ákveðinna krabbameina og bælingu ónæmiskerfisins. Í morgun kom út skýrsla hjá Norrænu ráðherranefndarinnar með niðurstöðum um kostnað samfélagsins vegna notkunar slíkra efna.

Þar kemur fram að árlegur kostnaður á Íslandi af völdum sjúkdóma tengdum þessum efnum er áætlaður 148 milljónir króna. 

Stefán Gíslason rekur efni skýrslunnar í Samfélaginu í dag. 

Samfélagið mánudaginn 17. nóvember 2014

------------------------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns

Í morgun kom út hjá Norrænu ráðherranefndinni skýrslan The Cost of Inaction, eða Verðmiði aðgerðaleysisins eins og ritið gæti heitið í lauslegri íslenskri þýðingu. Í skýrslunni er fjallað um áhugaverða aukaverkun hormónaraskandi efna, það er að segja þann kostnað sem efnin valda samfélaginu. Undirtitill skýrslunnar er Félagshagfræðileg greining á kostnaði sem tengist áhrifum hormónaraskandi efna á frjósemisheilbrigði karlmanna.

Hormónaraskandi efni eru talin hafa ýmis neikvæð áhrif á heilsu manna og annarra dýra. Nærvera við þessi efni er til dæmis talin stuðla að minnkandi frjósemi, aukinni tíðni hormónatengdra krabbameina, hegðunarbreytingum, bælingu ónæmiskerfisins og efnaskiptatruflunum sem leiða til offitu og sykursýki. Hins vegar hefur ekki tekist í öllum tilvikum að sýna fram á orsakasamhengið með fullri vissu, þ.e.a.s. að þessi tilteknu heilsuvandamál séu beinlínis tilkomin vegna snertingar viðkomandi einstaklings við umrædd efni, en eigi sér ekki einhverjar aðrar orsakir. Til að taka af allan vafa um túlkunina fjallar skýrslan Verðmiði aðgerðaleysisins eingöngu um þau neikvæðu áhrif sem menn telja nokkurn veginn sannað að stafi af snertingu við hormónaraskandi efni. Nánar tiltekið er kostnaður samfélagsins vegna fjögurra tiltekinna heilsufarsvandamála tekinn til skoðunar, en þau eru krabbamein í eistum, ófullnægjandi sæðisgæði og tveir tilteknir fæðingargallar í kynfærum sveinbarna. Niðurstöðutalan, þ.e.a.s. verðmiðinn sem skýrslan setur á neikvæð áhrif hormónaraskandi efna, endurspeglar því ekki nema brot af þeim kostnaði sem samfélagið verður raunverulega fyrir vegna þessara efna.

Yfirskrift skýrslunnar, The Cost of Inaction, eða Verðmiði aðgerðaleysisins, vísar til þess að kostnaðurinn sem lendir á samfélaginu vegna neikvæðra áhrifa hormónaraskandi efna, er í raun sá sami í krónum talið og sá fjárhagslegi ábati sem verða myndi af fyrirbyggjandi aðgerðum. Í skýrslunni er lagt mat á kostnað Norðurlandaþjóðanna, en tölurnar eru að einhverju leyti yfirfæranlegar á stærri heildir, svo sem Evrópusambandið eins og það leggur sig.

Í máli eins og þessu er erfitt að nefna eina endanlega tölu yfir árlegan kostnað. Kemur þar einkum tvennt til. Annars vegar á hver heilsufarsvandi sér yfirleitt fleiri en eina orsök. Þannig er vitað að hormónaraskandi efni geta stuðlað að krabbameini í eistum, en þar geta aðrir orsakavaldar líka átt hlut að máli. Þess vegna er það matsatriði hversu hátt hlutfall krabbameinstilfellanna eigi að taka með í reikninginn. Hins vegar er hægt að fara mismunandi leiðir í því að skipta kostnaðinum niður á ár. Í samræmi við þetta eru gefnar upp nokkrar mismunandi tölur í skýrslunni, fengnar með mismunandi reikniaðferðum.

Það er ekki alveg einfalt að reikna raunverulegan kostnað samfélags vegna sjúkdóma, en í grófum dráttum má skipta þessum kostnaði í þrennt, þ.e.a.s. beinan kostnað, óbeinan kostnað og afleiddan kostnað. Með beinum kostnaði er átt við kostnað í heilbrigðiskerfinu vegna meðhöndlunar sjúklinga, með óbeinum kostnaði er t.d. átt við kostnað atvinnulífsins vegna veikindadaga og með afleiddum kostnaði er átt við styttingu líftíma og skerðingu lífsgæða, en þessa þætti er auðvitað erfiðara að mæla en beina og óbeina kostnaðinn.

Til að nefna nú eina tölu, þá komast höfundar skýrslunnar um kostnað samfélagsins vegna hormónaraskandi efna að þeirri niðurstöðu að árlegur kostnaður Norðurlandanna vegna sjúkdóma af völdum þessara efna sé um 77 milljónir evra miðað við að þessi tilteknu efni eigi sök á 20% umræddra sjúkdóma. Talan fyrir Ísland er 952 þúsund evrur, eða sem svarar til 148 milljóna íslenskra króna. Ágóði íslensks samfélags af aðgerðum sem koma myndu í veg fyrir að fólk kæmist í snertingu við hormónaraskandi efni myndi með öðrum orðum nema nærri 150 milljónum króna á ári. Og þetta er væntanlega lágmarkstala, því að eins og ég gat um áðan ná þessir útreikningar eingöngu til þeirra fjögurra heilsufarsvandamála sem sannað þykir að stafi að hluta til af návist við umrædd efni. Ef rýnt er í evrópska skýrslu um svipuð mál sem kom út síðastliðið vor má jafnvel ætla að margfalda megi töluna með 25 ef allur kostnaður vegna hormónaraskandi efna væri tekinn með í reikninginn, þar með talinn kostnaður vegna áhrifa á dýralíf, vegna fjölgunar tilfella annarra krabbameina, svo sem í brjóstum og blöðruhálskirtli, vegna annarra hormónatengdra sjúkdóma á borð við fjölblöðrueggjastokkaheilkenni og vegna hegðunarbreytinga, efnaskiptasjúkdóma, bælingar ónæmiskerfis o.s.frv., en eins og ég nefndi áðan voru þessi atriði ekki tekin með í norrænu útreikningunum vegna þess að þar þótti hlutdeild hormónaraskandi efna í vandanum ekki nægjanlega sönnuð.

Í skýrslunni sem hér hefur verið til umræðu, og kom eins og fyrr segir út hjá Norrænu ráðherranefndinni í morgun, er að finna nokkur heilræði til stjórnvalda um aðgerðir sem hægt væri að grípa til í þeim tilgangi að minnka líkurnar á að fólk og önnur dýr verði fyrir skaða af hormónaraskandi efnum. Í þeim ráðleggingum er m.a. talað um herta löggjöf og betri prófanir á efnum. En ef við lítum okkur nær og veltum því fyrir okkur hvað við getum sjálf gert í málinu til að reyna að bjarga eigin skinni og spara heilbrigðiskerfinu og okkur sjálfum álitlegar fjárhæðir, þá vill svo vel til að við erum ekki bara fórnarlömb, heldur getum við haft heilmikil áhrif með orðum okkar og gjörðum. Við getum til dæmis farið sparlegar með ýmsar vörur en við gerum, til að mynda snyrtivörur. Við getum keypt Svansmerktar eða aðrar umhverfismerktar vörur sem eru að öllum líkindum lausar við hormónaraskandi efni. Við getum líka keypt lífrænt vottaðar vörur, upprunnar úr landbúnaði þar sem notkun eiturefna er bönnuð. Og svo getum við spurt, við öll hugsanleg tækifæri, um það hvort varan sem við erum að hugsa um að kaupa innihaldi einhver hormónaraskandi efni. Svörin liggja ekki alltaf á lausu, en ef enginn spyr hljóta framleiðendur og seljendur að túlka það svo að öllum sé sama. Og síðast en ekki síst þurfum við að vanda okkur sérstaklega við að halda hormónaraskandi efnum frá verðandi mæðrum og ungabörnum, því að þar er grunnurinn lagður að því sem koma skal.