Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kostnaður við ferðir forsetans 7,9 m.

31.01.2014 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Kostnaður við ferðir Ólafs Ragnars Grímssonar á síðasta ári nam tæpum 7,9 milljónum króna. Hann var 94 daga í útlöndum - þar með eru taldir frídagar erlendis. Kostnaður við ferðir Dorritar Moussaieff, forsetafrúar, var 914 þúsund en hún fór í sjö embættisferðir með Ólafi Ragnari á síðasta ári

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns, um ferðalög forsetans og maka hans. Svarið var lagt fram á Alþingi í dag.

Dýrasta ferðin sem Ólafur Ragnar fór í á síðasta ári var vegna ráðstefna í Washington, funda með þingmönnum í öldungardeild Bandaríkjaþings, funda í Washington og þátttöku hans í ráðgjafanefnd Alþjóðabankans um hreina orku. Kostnaðurinn við þá ferð, samkvæmt svari Sigmundar, nam rúmri 1,3 milljónum króna. Engin önnur ferð forsetans á síðasta ári kostaði yfir milljón.

Ferðin sem Ólafur Ragnar fór til Indlands í tengslum við alþóðlega ráðstefnu um jöklarannsóknir á Indlandi kostaði til að mynda rúmar 806 þúsund krónur en flug innanlands og öll gisting var í boði indverskra stjórnvalda, að því er segir í svari forsætisráðherrra. Og ferð forsetans til Sviss - í tengslum við Alþjóðlega efnahagsþingið í Davos  og München - vegna upplýsingatækni - og margmiðlunarþingsins DLD - kostaði 819 þúsund krónur.

Kostnaður við ferðina í krýningarafmæli Karls Svíakonungs í Stokkhólmi nam tæpum 300 þúsund krónum en ódýrasta ferðin sem Ólafur Ragnar fór í á síðasta ári var á landsleik Króatíu og Íslands í umspilinu um laust sæti á HM í Brasilíu. Hún kostaði rúmar sextíu þúsund krónur.

Dorrit fylgdi Ólafi í sjö embættisferðir. Hún fór með honum í opinbera heimsókn til Frakklands og Þýskalands, sótti heimsmót íslenska hestsins í Berlín, tók þátt í málþingum og ráðstefnum í München og Davos, fór til Washington, var viðstödd krýningarafmæli Karls Svíakonungs og fór á landsleik Króatíu og Íslands í Zagreb. Kostnaður við ferðir forsetafrúarinnar nam rúmum 914 þúsund krónum en fram kemur í svari forsætisráðherra að enginn annar kostnaður hafi verið greiddur vegna ferða hennar. Þá segir einnig að Ólafur Ragnar hafi sjálfur greitt allan kostnað við einkaferðir sínar.

 

 

 

Svandís óskaði eftir skriflegu svari frá forsætisráðuneytinu um utanlandsferðir forseta Íslands, hvað þær hefðu kostað, hvað forsetinn hefði verið marga daga í útlöndum og hvaða kostnaður hefði fallið á forsetaembættið vegna ferðalaga maka forsetans erlendis og til og frá landinu.

Í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, kemur fram að forsetinn hafi verið 94 daga í útlöndum á síðasta ári - inn í þessari tölu sé einnig frídagar. Hann hafi greitt sjálfur allan kostnað við einkaferðir sínar.

Embætti forseta Íslands greiddi rúmaar 914 þúsund krónur í  fargjöld fyrir sjö ferðir Dorritar Moussaeiff á síðasta ári. Þær voru allir í tengslum við embættisferðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur.