Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kostnaður sveitarfélaganna snareykst

Mynd með færslu
 Mynd:
Kostnaður Hafnarfjarðarbæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar við ferðaþjónustu fatlaðra hefur snaraukist frá því í fyrra. Mestu munar hjá Hafnarfjarðarbæ sem greiddi tvöfalt meira fyrir þjónustuna í janúar í ár en í fyrra.

Hafnarfjarðarbær tók saman upplýsingar um kostnaðinn í sveitarfélögunum þremur, en Strætó tók við þjónustunni um áramót. Fréttablaðið greindi frá kostnaðaraukningunni í morgun.

Í samantektinni kemur fram að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar við ferðaþjónustu fatlaðra nam tæplega sjö milljónum króna í janúar 2014 en var tvöfalt hærri í ár, rúmlega 14 milljónir. Kostnaðurinn tvöfaldaðist einnig ef litið er til kostnaðar fyrir hverja ferð.

Í Mosfellsbæ jókst kostnaðurinn úr tæplega 4,3 milljónum króna í tæplega 5,7 milljónir milli ára, eða um þriðjung, en þar fækkaði ferðum nokkuð svo kostnaðurinn á hverja ferð jókst um tæplega 44%.

Hjá Seltjarnarnesbæ er aðeins samanburður við desember 2014, en þá nam heildarkostnaðurinn einni og hálfri milljón króna. Í janúar hafði hann hækkað í 1,7 milljónir eða um tæplega 11%. Ferðum fækkaði aftur á móti milli mánaða svo hækkunin á hverja ferð hjá Seltjarnarnesbæ var tæplega 42%, samkvæmt samantektinni.

 

Fréttastofa lagði í morgun fram fyrirspurnir um kostnað Reykjavíkurborgar og Garðabæjar. Í Garðabæ var kostnaðurinn í janúar 2014 tæplega 2,9 milljónir króna. Ári síðar var hann kominn í rúmlega fimm og hálfa milljón, en á móti kemur að ferðum fjölgaði nokkuð. Kostnaðurinn á hverja ferð jókst þó um tæplega 63%.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg liggur endanleg niðurstaða ekki fyrir en kostnaðurinn í janúar 2015 er sagður vera um 70 milljónir króna. Kostnaður í meðalmánuði í fyrra hafi verið um 65 milljónir króna.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV