Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kostnaður sjúklinga verði minnkaður verulega

07.02.2017 - 16:38
heilbrigðisráðherra
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Stefnt er að því að lækka verulega kostnað sjúklinga, segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. Það þurfi að gerast í áföngum og á nokkrum árum. Lög sem samþykkt voru á síðasta þungi um breytta greiðsluþátttöku sjúklinga öðlist gildi í maí.

Óttarr var í viðtali við á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Þar var hann inntur eftir því hvað fælist í þeim orðum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: Stefnt skal að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu.

Óttarr segir að fyrir nokkrum árum hafi nefnd undir formennsku Péturs H. Blöndals unnið hafist handa við að kortleggja kostnað sjúklinga. Hann hafi verið afar misjafn eftir sjúkdómum. "Það var orðið mjög mikið ósamræmi og í raun og veru spurning um heppni hvernig maður veiktist, hvort maður þurfti að borga hundruð þúsunda með sér í meðferðina eða ekki. Það var unnið plan og samþykkt frumvarp síðasta vor um að jafna þennan heilbrigðiskostnað og setja þak á hann," segir Óttarr. „Hluti af þeirri vinnu sem var samþykkt af öllum flokkum á þingi, fólst í því að setja auka peninga inn í kerfið til þess að niðurgreiða og ná þakinu niður. Þetta kerfi er ekki komið í gagnið ennþá. Það hefur tekið tíma tæknilega að innleiða þetta í stofnunum, þarf að komast inn í öll tölvukerfi. Það er gert ráð fyrir að innleiða þetta 1. maí,“ segir Óttarr. 

Forveri Óttars í embætti vann reglugerð í samræmi við nýju lögin en gildistöku hennar var frestað. Lagabreytingin felur í sér að kostnaður þeirra sem hingað til hafa þurft að greiða mikinn heilbrigðiskostnað minnkar og kostnaður þeirra sem sjaldan leita til læknis eykst. 

Þá segir Óttarr að skýrsla Alþýðusambandsins, sem sýndi að kostnaðarþátttaka sjúklinga hefði tvöfaldast, hafi vakið athygli. „Þannig að þetta er þróun sem við viljum fara með til baka. Það er dálítið stórt skref að lofa því að á einhverjum tilteknum tíma verði öll þjónusta ókeypis en auðvitað viljum við stefna niður í það að kostnaðarþátttaka sjúklinganna sé sem allra minnst. Það er bara spurning um peninga af því að allar hreyfingar í svona stóru kerfi kosta svo mikið. Þannig að þetta verður að gerast að einhverju leyti í bútum en planið er að setja einhvers konar X ára langa áætlun um hvernig við bara keyrum þetta kerfisbundið niður," segir Óttarr.

Niður í núll? „Ja, niður í núll eða niður að því að það alla vega hafi ekki stór áhrif á persónulegan fjárhag sjúklinga,“ segir Óttarr.