
Kostnaður fámennra sveitarfélaga mun meiri
Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga, Halldór Halldórsson, sagðist í seinni fréttum sjónvarps í gær vilja skoða sameiningu sveitarfélaga, fyrst og fremst minni sveitarfélaga, svo einfaldara verði fyrir þau að taka við stærri verkefnum.
Í árbók sveitarfélaga má sjá skiptingu útgjalda þeirra eftir málaflokkum og deilt með íbúafjölda. Þar kemur stærðarhagkvæmni glögglega í ljós. Til að mynda verja sveitarfélögin Fljótsdalshreppur, Hvalfjarðarsveit og Reykhólahreppur mestu á hvern íbúa til fræðslumála. Kostnaður Fljótsdalshrepps nemur þar 770 þúsund krónum á hvern íbúa. Í fjölmennustu sveitarfélögum landsins er kostnaður vegna fræðslumála á hvern íbúa undir 300 þúsund krónum. Fljótsdalshreppur ver mestu á hvern íbúa til menningarmála, 190 þúsund krónum en Akrahreppur 84 þúsund og Rangárþing eystra 67 þúsund á hvern íbúa. Í flestum stærstu sveitarfélögum landsins er sami kostnaður undir 20 þúsund krónum á hvern íbúa.
Loks verja Blönduósbær, Kaldrananeshreppur og Fljótsdalshreppur ríflega 140 þúsund krónum fyrir hvern íbúa til æskulýðs og íþróttamála. Flest stærstu sveitarfélögin verja innan við 70 þúsund krónum á hvern íbúa til málaflokksins. Stærstu sveitarfélögin verja hins vegar mestu á hvern íbúa til félagsþjónustu.