Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kosti 6.400 krónur að fara í Raufarhólshelli

27.12.2016 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Auður Alfífa Ketilsdóttir
Lokað hefur verið fyrir innganginn að Raufarhólshelli í Þrengslunum svokölluðu, suðaustur af Bláfjöllum. Hellirinn verður opnaður fyrir ferðamönnum næsta sumar og mun það kosta 6.400 krónur að fara um hann.

Raufarhólshellir í Þrengslunum er um 1360 metra langur og upp undir 10 metra hár. Þúsundir hraunkerta hanga úr hellisþakinu; í frosti myndast íssúlur á gólfi hans; og í einum botni hellisins er tveggja metra hár hraunfoss. Erfitt og jafnvel hættulegt getur verið að fara um hellinn vegna grjóthruns.

Hellirinn hefur verið opinn almenningi fram til þessa. En fyrir um einum og hálfum mánuði var lokað fyrir inngang hans, að sögn Hallgríms Kristinssonar. Hallgrímur er talsmaður fyrirtækisins Raufarhóls, sem nú er að undirbúa framkvæmdir í og við hellinn. Að mati þess lögðu um 20.000 manns leið sína í hellinn á síðasta ári.

 

Raufarhólshellir
 Mynd: Rúv - Ruv

 

Hallgrímur segir að verið sé að vinna í skipulagsmálum og afla framkvæmdaleyfa. Í janúar verði byrjað að stækka bílastæði við hellinn og undirbúa framkvæmdir í hellinum. Verið sé að leggja lokahönd á hönnun stíga. Í vor er svo áætlað að hefja ferðir í hellinn og hefur þegar verið sett upp vefsíða um hellinn - Thelavatunnel.is. Boðið verður upp á rétt undir klukkutíma langar ferðir frá klukkan tíu á morgnana til fimm á daginn. Hver ferð kostar 6.400 á mann. Þá stendur einnig til að opna á kvöldin í tengslum við sérferðir eins og norðurljósaferðir, auk þess sem hægt verður að fara í lengri ferðir inn að botni hellisins. Hallgrímur segir að notast verði við efni úr hellinum sjálfum, en það sem byggt verður úr öðru efni, verði endurkvæmt - hægt verði að fjarlægja byggingarefnið síðar, vilji menn það.

Þótt hellinum hafi verið lokað fyrir almenningi, býður fyrirtækið Extreme Iceland upp á ferðir í hellinn nú í vetur, í samstarfi við fyrirtækið Raufarhól. Ferðin kostar 19.900 krónur á mann, fyrir fimm klukkustunda ferð með akstri og úbúnaði.

Raufarhólshellir er á náttúruminjaskrá og hefur Umhverfisstofnun áður lýst því yfir að gjaldtaka á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá standist ekki lög. Hins vegar er heimilt samkvæmt náttúruverndarlögum að taka gjald fyrir aðgang að svæði, til að standa straum af eftirliti, lagfæringum og uppbyggingu svæðisins.

Hallgrímur segir að félagið hafi fengið lögfræðinga sína til að fara yfir málið. Enginn vafi leiki á því heimilt sé að loka Raufarhólshelli, enda fjölmörg fordæmi fyrir því að hellum sé lokað.