Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kostar 113 milljónir að byggja yfir kútter

13.12.2012 - 09:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Það myndi kosta 113 milljónir króna að byggja bráðabirgðaskýli yfir Kútter Sigurfara. Þetta kemur fram í matsgerð sem unnin var fyrir Akranesbæ. Kútter Sigurfari er síðasta þilskip Íslendinga sem enn er varðveitt en liggur nú undir skemmdum.

Skagamenn hafa lagt mikla áherslu á það síðustu misseri að finna lausn á málum Kútters Sigurfara. Þeir hafa gengið svo langt að segja að annað hvort þurfi að bjarga skipinu eða taka ákvörðun um að farga því. Nú leggja þeir til að byggt verði skýli yfir skipið þannig að hægt verði að koma því í skjól fyrir veðri og vindum. Þannig verði hægt að koma í veg fyrir frekari skemmdir á skipinu og síðar verði hægt að ráðast í endurbyggingu þess og byggingu varanlegs sýningarhúss.

Tillögurnar ganga út á að byggt verði skýli með útveggi sem síðar geti nýst sem hluti af endanlegu sýningarhúsi. Kostnaður við gerð skýlisins er áætlaður 113 milljónir króna. Inn í þá tölu er tekinn framkvæmdakostnaður, ýmis tilfallandi kostnaður og flutningur skipsins meðan á byggingu skýlisins stendur. Þá á eftir að gera ráð fyrir kostnaði við viðgerð skipsins og hönnun og byggingu nýs sýningarhúss yfir það.