Kosningu um Teigsskóg líklegast frestað

16.01.2019 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Oddviti Reykhólahrepps telur líklegt að kosningu í sveitarstjórn Reykhólahrepps um leiðarval á Vestfjarðarvegi verði frestað en sveitarstjórnin átti að ákveða leið í dag. Funda þurfi fyrst með ráðherra áður en ákvörðun er tekin.

Ágreiningur um leiðarval á svæðinu hefur spanað mörg ár.  Sveitarstjórn Reykhólahrepps lét vinna valkostagreiningu þar sem leið Þ-H, um Teigsskóg, sem er tillaga Vegagerðarinnar, og leið R um Reykhóla, sem er tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult, voru bornar saman. Niðurstaðan var sú að leið R sé vænlegust. Vegagerðin telur hins vegar að leið R tefji framkvæmdir og sé dýrari en leið Þ-H sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps, sagði í samtali við Rás2 í morgun hafa óskað eftir fundi með samgönguráðherra í marga mánuði. Sá fundur sé nú fram undan og þá sé eðlilegra að ræða fyrst við ráðherra áður en farið er í kosningu, sér í lagi til að vita hvort og hvaðan fjármagn fyrir framkvæmdunum muni koma. „Þess vegna er gott að ræða við samgönguráðherra áður en við tökum ákvörðun um þetta svo við vitum nú hvar fjárveitingarvaldið standi. Við vitum það náttúrulega ekki. Vegagerðin og margir úr samgöngunefnd Alþingis hafa sagt það skýrt að þeir líti þannig á það að þetta fjármagn sem er núna á áætlun sé eingöngu ætlað í Þ-H leiðina. Við spyrjum þá til hvers erum við með þetta skipulagsvald ef það verður aldrei nein leið farin nema það sem Vegagerðin vill. Við þurfum að fá úr því skorið hjá samgönguráðherra.“

Ingimar bendir á að málið sé búið að vera frosið í 17 ár. Skipulagsstofnun hafi hafnað tillögum Vegagerðarinnar vegna Vestfjarðarvegs um Teigskóg. „Þetta snýst ekki bara um Teigskóg. Þetta snýst líka um fjörurnar þarna og að svæðið er verndað af náttúruverndarlögum og það þarf brýna nauðsyn til þess að fara í gegnum þetta. Það strandar náttúrulega bara á því. Vegagerðin veit þetta en þeir ætla samt að halda áfram með þetta, það er bara eins og þeir vilji bara ekki laga þessa vegi hérna.“

Þér finnst sem sagt alveg eins líklegt að Skipulagsstofnun muni stoppa þessa leið af? „Mér finnst það ekkert líklegt, ég er bara nánast viss um það. Þetta verður bara sent heim aftur og hvað þá?“ segir Ingimar. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi