Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Kosningar um stjórnarskrá ólýðræðislegar

29.09.2012 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Væntanlegar kosningar um ráðgefandi tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru ólýðræðislegar. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á opnum fundi á Akureyri í dag. Hann sagði jafnframt að stjórnarflokkarnir muni toga og teygja niðurstöðurnar sér í hag.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vikudags. Bjarni var gestur á opnum stjórmálafundi fyrir norðan og var ómyrkur í máli þegar kosningarnar bárust í tal. Hann sagðist furða sig á því hversu lítil umræða færi fram um kosningarnar, þjóðin virtist ekki taka málið alvarlega. „Ég held að fólk trúi því ekki að til standi að fara í atkvæðagreiðslu sem muni kalla á stjórnarskrá á þeim grundvelli sem stjórnlagaráð hefur skilað af sér,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að í hvert sinn sem jöfnun atkvæðisréttar hafi verið til umræðu hafi allir viljað hafa skoðun á málinu.  „En nú þegar stjórnlagaráðið segir að menn ætli að jafna atkvæðisréttinn, sem mun fyrir Norðausturkjördæmi  væntanlega þýða helmings fækkun þingmanna, er nánast engin umræða.  Við þetta er ég ósáttur. Ástæða þagnarinnar er líklega sú að fólk tekur hugmyndum  stjórnlagaráðs ekki alvarlega.“

Bjarni sagði það vera sitt mat að kosningar á landsvísu eigi að ráða málum til lykta. Kosningarnar um tillögur stjórnlagaráðs séu bara könnun. „En trúið mér, könnunin verður notuð til að rökstyðja þann málstað sem stjórnarflokkarnir telja að henti best sinni stefnu.  Slíkt er í mínum huga einhverjar ólýðræðislegustu kosningar sem hægt er að framkvæma. Kosningar þar sem hægt er að toga og teygja niðurstöðuna sér í hag.“