Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kosningar 29. október - Viðbrögð

11.08.2016 - 17:45
Mynd: RUV / RUV
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Leiðtogar ríkisstjórnarinnar lögðu það til við stjórnarandstöðuna að kosið yrði til Alþingis 29. október næstkomandi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur að hægt sé að klára helstu mál ríkisstjórnarinnar fyrir þann tíma. Þetta þýði þó að lengja verði það þing sem nú stendur yfir og að fjárlagafrumvarp verði ekki lagt fram fyrr en eftir kosningar.

Bjarni segir að það séu tugir mála sem þurfi að halda áfram með og svo komi einhver ný mál. Þá verði líklega ekkert fjárlagafrumvarp lagt fram fyrir kosningar. „Þessi mál vorum við að ræða og í mínum huga er alveg ljóst að við höfum góðan tíma fyrir framan okkur ef að þingstörfin ganga eðlilega fyrir sig til þess að ljúka öllum þessum málum og þá verður kosið 29. október.“

Mynd: RUV / RUV

Bjarni segir ekki gert ráð fyrir því að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir kosningar. „Samkvæmt þessu þá myndi það ekki koma fram fyrr en eftir kosningarnar. Þess vegna er nú ekki hægt að fresta þeim mikið lengur en þetta. Við höfum undirbúið ný fjárlög og það er allt tilbúið í kerfinu til þess að framkalla fjárlögin eftir að síðustu pólitísku áherslurnar hafa verið lagðar í þeim. Myndi nást að afgreiða það fyrir áramótin? Jájá þingið getur vel gert það.“ 

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að rætt hafi verið um tæplega 40 mál sem ekki kláruðust í vor. Síðan hafi ný mál verið kynnt til sögunnar. Kjördagur hafi verið ræddur innan ríkisstjórnarinnar og það sé einhugur meðal ráðherra þrátt fyrir yfirlýsingar, t.d. Gunnar Braga Sveinssonar, um að það væri glapræða að ákveða kjördag.

Mynd: RUV / RUV

Stjórnarandstæðingar tóku vel í hugmyndir ríkisstjórnarinnar. Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagðist treysta því að staðið yrði við kjördag 29. október.

Mynd: RUV / RUV

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir mikilvægt að halda því til að samkomulag forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um kosningar sé fyrst og fremst við þjóðina. 

Mynd: RUV / RUV

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, jákvætt að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eyði þeirri óvissu sem var um kjördag sem hafi verið óþolandi. 

Mynd: RUV / RUV

Óttar Proppé, Bjartri framtíð, fagnar þeirri ákvörðun að kosið verði 29. október. Hann lagði þó áherslu á að stjórnarandstaðan hefði lagt áherslu á að kosið yrði í vor og því væri ekki verið að semja við okkur um þessa dagsetningu. 

Mynd: RUV / RUV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV