Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kosningapróf: Heildarendurskoðun stjórnarskrár

26.10.2016 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjö af hverjum tíu sem tekið hafa þátt í kosningaprófi RÚV telur að ljúka eigi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á kjörtímabilinu. 23 prósent eru því ósammála. 

Alls hafa tæplega 48.900 tekið afstöðu til fullyrðingarinnar sem hljóðar svo: „Á kjörtímabilinu ætti að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar“.

72 prósent segjast vera sammála fullyrðingunni, þar af segjast rúmlega 20 þúsund vera algjörlega sammála, eða 41 prósent. Eins og áður sagði þá segjast 23 prósent vera ósammála. Þar af segjast 4.877 algjörlega ósammála, eða tæp tíu prósent. 

Rétt er að geta þess að aðferðafræðin uppfyllir ekki kröfur um vísindalegar skoðanakannanir. Prófið og úrvinnsla úr því er fyrst og fremst til gamans gerð. Kjósendur geta þó fengið vísbendingar um það með hvaða frambjóðanda þeir eiga mesta samleið. Hægt er að taka kosningaprófið á ruv.is.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV