Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kosningabarátta hafin í Bretlandi

17.04.2016 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kosningabarátta fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um úrsögn eða áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu hófst formlega fyrir helgina. Skoðanakannanir benda til þess að ekki sé marktækur munur á milli stuðningsmanna úrsagnar og áframhaldandi veru í ESB.

Þjóðaratkvæðagreiðslan verður 23. júní en þó að kosningabaráttan hafi einungis hafist opinberlega á föstudag hefur málið verið mjög til umræðu allt frá því að David Cameron boðaði til kosninganna í janúar síðastliðnum.

Stórsparnaður og endurheimt fullveldis

Talsmenn útgöngu segja að Bretar myndu spara stórar upphæðir sem þeir greiða nú til ESB og endurheimta glatað fullveldi og yfirráð í málum sem Evrópusambandið ráði nú, eins og málefnum innflytjenda. Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna og einn helsti talsmaður úrgöngu, segir að þeir sem óski að losna við stórkosleg útgjöld og endurheimta stjórn eigin mála og lýðræðis verði að greiða atkvæði með úrsögn.

Efnahag og áhrifum stefnt í hættu með úrsögn

Talsmenn áframhaldandi veru Breta í ESB segja á hinn bóginn að Bretar yrðu áhrifaminni á alþjóðavettvangi, viðskiptum og efnahag landsins yrði stefnt í hættu og störf myndu glatast ef þeir ákveða að segja skilið við sambandið. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sem lengi hefur verið gagnrýninn á Evrópusambandið hefur nú tekið af skarið og lýst stuðningi við áframhaldandi veru. Hann segir margt að sambandinu en aðeins með því að vera áfram og vinna með öðrum sambandsríkjum sé hægt að breyta því.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV