Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var gestur Óðins Jónssonar í Morgunvaktinni á Rás 1 í aðdraganda landsfundar Vinstri grænna sem haldinn er um helgina. Hún rakti hvernig stjórnmálin hefðu færst til hægri eftir frjálshyggjubyltingu níunda áratugar síðustu aldar. Nú þyrfti að takast á við afleiðingar nýfrjálshyggju.
Aðspurð hvort vinstrimenn ættu að sameinast svaraði Katrín: „Ég veit ekki hvort ég myndi taka svo djúpt í árinni en það eru ýmsir búnir að orða til dæmis hugmyndir um kosningabandalag fyrir næstu kosningar og ég hef tekið mjög vel í þær hugmyndir.“
Katrín sagði að vinstrivængurinn í íslenskum stjórnmálum yrði að styrkja sig. „Það hefur verið mjög vinsælt hjá stjórnmálaflokkum að segja ekkert vinstri og ekkert hægri. Mér finnst það svolítið merkilegt þegar við erum að horfa í raun og veru fram á vaxandi átök, jafnvel um auðlindirnar, um auðinn í heiminum, breytta samfélagsgerð með aukinni tækni, svo dæmi sé tekið.“ Þannig gætu tæknibreytingar gjörbreytt atvinnulífinu og þar með stéttaskiptingunni.