Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kosið um vantrauststillögu í dag

11.03.2013 - 07:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Vantraustsstillaga Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, á ríkisstjórnina verður til umræðu á Alþingi í dag og afgreidd. Umræðan hefst klukkan 10.30 og tekur um fjóra klukkutíma. Að henni lokinni verður atkvæðagreiðsla sem búist er við að hefjist klukkan 14:45.

Bein útsending verður frá vantraustsumræðunni í sjónvarpinu og á Rás 2 klukkan og hefst útsending klukkan hálf ellefu. 

Þór Saari lagði vantrauststillöguna fram í síðustu viku vegna óánægju með að frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem byggði á störfum stjórnlagaráðs, yrði ekki að lögum á þessu kjörtímabili. Í greinargerð með tillögunni segir að lýðræðisumbætur sem lofað hafi verið í aðdraganda kosninga hafi ekki enn litið dagsins ljós og enn sé við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði. Samkvæmt tillögunni á ríkisstjórnin að fara frá og starfsstjórn skipuð fulltrúm allra flokka á þingi að taka við fram yfir kosningar.