Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kosið um sameiningu á Snæfellsnesi

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Íbúar í Stykkishólmi, Helgafellssveit og Grundarfirði greiða væntanlega atkvæði í lok nóvember eða byrjun desember um hvort sameinina eigi sveitarfélögin. Sameiginlegur undirbúningsfundur sveitarstjórnanna verður haldinn eftir helgi. Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, sagðist á Morgunvaktinni vonast til að sveitarfélögin sameinist og á endanum verði allt Snæfellsnes eitt sveitarfélag.

Verkefni sveitarfélaganna eru orðin fleiri og flóknari en þau voru á fyrra tímabili Sturlu Böðvarssonar sem sveitarstjóra, og síðar bæjarstjóra, í Stykkishólmi, 1974-1991. Eftir að hafa gegnt þingmennsku, verið ráðherra og forseti Alþingis, tók Sturla aftur við bæjarstjóraembættinu 2014. Og framundan eru mikil og ögrandi verkefni á Snæfellsnesi. Sturla nefnir sérstaklega mikilvægi þess að sveitarfélag hafi burði til að ráða hæft fólk, sem hafi þekkingu og reynslu á sviði skipulagsmála. „Ég tel að sá tími muni koma að Snæfellsnesið verði eitt sveitarfélag. Það er ekki komið að því.“ En stórt skref á þeirri leið væri sameing Stykkishólms, Helgafellssveitar og Grundarfjarðar.

„Við erum að huga að því til að hafa meira afl til að stjórna.“

Sérfræðingar hafa aflað gagna og undirbúið málið. Áætlun verður lögð fyrir sveitarstjórnirnar, sem halda fyrsta sameiginlega fund á mánudag til að skoða „hvort vit sé í að sameina,“ eins og bæjarstjórinn í Hólminum orðar það. „Ég er einn af þeim sem telja að það eigi að gera þetta.“ En Sturla áréttar að ekki dugi að líta til rekstrarþátta, eins og þeir blasa við í dag, það verði að meta hver áhrifin verða til langs tíma. Stefnt er að því að íbúar í umræddum þremur sveitarfélögum greiði atkvæði um það í lok nóvember eða í byrjun desember hvort þeir vilji sameina þau. „Ef að það yrði samþykkt, þá liggur það fyrir að það yrði kosið í nýju sveitarfélagi í vor,“ segir Sturla Böðvarsson. Verði af sameiningunni, þá fækkar sveitarfélögum á Snæfellsnesi úr fimm í þrjú. Sturla vitnar til orða séra Árna Þórarinssonar, sem sagði að það fyrsta sem Snæfellingar lærðu væri að segja nei. „Ég vona að okkur hafi farið fram síðan,“ segir Sturla, sem segist aldrei hafa tapað kosningum í sínu pólitíska lífi – en sé meðvitaður um að það geti gerst.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Frá Stykkishólmi
odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður