Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kosið um 2 sæti en ekki 4

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einungis þrír verða í kjöri í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem fram fer 8. til 10. september. Kosið verður milli þeirra Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, Guðjóns Brjánssonar og Ingu Bjarkar Bjarnadóttur. Á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í júlí var ákveðið að prófkjörið yrði bindandi fyrir fjögur efstu sæti listans og jafnræði milli kynja gætt með paralista. Þessu hefur nú verið breytt þar sem aðeins þrír eru í framboði.

Einhverjir drógu framboð sín til baka þegar ljóst var hverjir gæfu kost á sér og ákvað Geir Guðjónsson, formaður kjörstjórnar, að kosningin yrði aðeins bindandi fyrir tvö efstu sætin og stillt yrði upp á listann frá þriðja sæti.

Geir segir töluverðan kostnað fylgja þátttöku í prófkjörum í svo víðfeðmu kjördæmi. Þar fyrir utan verða þátttakendur fyrir töluverði tekjutapi vegna fjarveru frá vinnu. 

Vegna reglna flokksins um paralista er því ljóst að Guðjón Brjánsson verður í öðru af tveimur efstu sætunum.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV