Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kórstjóri umbreytist í ofurhetju öræfanna

Mynd: Kona fer í stríð / Kona fer í stríð

Kórstjóri umbreytist í ofurhetju öræfanna

29.05.2018 - 13:51

Höfundar

Kvikmyndarýnir Lestarinnar segir að Kona fer í stríð nýti sér kunnuleg stef úr spennu- og njósnamyndum á nýstárlegan hátt með því að færa þau inn í íslenska náttúru. Þrátt fyrir að náttúruvernd sé hluti af kjarna myndarinnar prediki hún þó aldrei yfir áhorfendum heldur sýnir þeim sannfærandi mynd af aktívísta sem tekur lögin í eigin hendur.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Kona fer í stríð er nýjasta mynd Benedikts Erlingssonar, sem áður gerði hina stórfínu og margverðlaunuðu Hross í oss. Kona fer í stríð var frumsýnd í Cannes nú á dögunum, þar sem hún var sýnd sem hluti af Semaine de la Critique og vann til SACD verðlaunanna. Viðfangsefnið er öðru sinni samband mannfólks við umhverfið, áður voru það dýrin, eða hrossin, og nú er það hálendið og fósturjörðin. Strax í fyrstu senu er tónninn settur og aðalpersónan skilgreind: hún spennir upp boga og ræðst gegn háspennulínum til að eyðileggja fyrir virkjanastarfsemi. Halla birtist okkur eins og stríðskona eða útlagi, ein í óbyggðum, leggst niður á jörðina og faðmar mosann sem sýnir skýrlega gildismat hennar á umhverfinu: það er hluti af henni, hluti af okkur öllum, nærveran er hlý og gefandi, jörðin er ekki auðn og hráefni.

Halla er kórstjóri og hversdagslegur samfélagsþegn út á við í alla staði, en býr yfir leyndarmáli sem einungis einn annar þekkir, minnir á nokkurs konar ofurhetju sem berst gegn glæpum gegn náttúrunni þegar enginn sér til. Í upphafi myndar er samfélagið nú þegar yfir sig forvitið um skemmdarverkin sem hafa verið gerð og hafa hlotið alþjóðlega athygli. Grunurinn beinist að einhvers konar samtökum, ekki einni manneskju, talað er um „grænu herdeildina“ sem fælir burtu fjárfestana. Öryggisgæslan verður sífellt meiri og einungis tímaspursmál hvenær heimasmíðuð aktivistatól Höllu duga ekki lengur gegn hátækni óvinarins.

Boginn spenntur hátt í margræðu hlutverki

Hún hefur enn ekki náð markmiði sínu og vill halda áfram, þrátt fyrir mótmæli vinar síns, en málin flækjast þegar henni berast fréttir af munaðarlausri fjögurra ára stúlku frá Úkraínu sem vantar heimili. Halla hefur beðið þess lengi að fá að taka að sér barn og stendur því frammi fyrir flókinni stöðu: að halda árásunum áfram og hætta á að missa af tækifæri til að verða móðir, eða gefa aktivismann upp á bátinn og einbeita sér að því að bjarga barninu - og auðvitað langar hana helst til að gera bæði.

Mynd með færslu
 Mynd: Kona fer í stríð

Kona fer í stríð er skemmtileg og spennandi mynd af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi vil ég minnast á frammistöðu Halldóru Geirharðsdóttur í aðalhlutverkinu, því hún ber myndina á herðum sér, enda er hún eini titlaði leikarinn í upphafstitlum myndarinnar. Það er reglulega gaman að sjá hana í svona stóru og margræðu hlutverki. Í öðru lagi er það leikstjórn Benedikts Erlingssonar sem blandar listilega vel saman húmor og alvarleika og kann að setja á svið grípandi og myndrænar senur, allt frá spenntum boga í fyrstu skotum myndarinnar og fram til reglulega sterkrar lokasenu sem situr eftir í minningunni, en leikstjórinn vinnur nú öðru sinni með myndatökumanninum Bergsteini Björgúlfssyni sem einnig skaut Hross í oss. Handritið skrifar Benedikt ásamt Ólafi Egilssyni, sem er skemmtilega skrifað og ekki síður spennandi eftir því sem á líður og armur laganna fer að þrengja að stríðskonunni.

Náttúruvernd hluti af kjarna verksins

Myndin sækir í brunn njósna- og spennumynda og nýtir sér kunnugleg stef slíkra kvikmynda á nýstárlegan hátt, með því að færa þau inn í óvenjulegt samhengi íslenskrar náttúru – atriði með dróna og Nelson Mandela kemur til dæmis upp í hugann sem dæmi um sérstakan húmor myndarinnar. Og á bak við þetta allt saman hrærist grafalvarlegt umfjöllunarefni, eyðilegging náttúrunnar, gróðamaskínan og áhrif mannfólks á hnattræna hlýnun, eins og fréttirnar í skrautlegri stofunni heima hjá Höllu bera vitni um, sem rúlla í bakgrunninum og sýna eyðileggingu um allan heim, en sjónvarpið er með hljóðið af – annað dæmi um sérstaklega vel smíðaða og táknræna senu.

Mynd með færslu
 Mynd: Kona fer í stríð

Náttúruvernd er auðvitað hluti af kjarna myndarinnar, en verður þó aldrei yfirgnæfandi eða predikandi sem efni, því fyrst og fremst er þetta saga um Höllu, um eina manneskju sem reynir að gera eitthvað í málunum, þótt það kunni að vera ógerningur. Myndin kafar ekki sérstaklega djúpt ofan í ástæður aktivisma hennar eða um gildi náttúruverndar almennt, heldur gerir frekar ráð fyrir að áhorfendur komi með sinn eigin skilning á því inn í bíósalinn. Sagan fylgir sjónarhorni Höllu og fyrir vikið eru stjórnvöld og yfirvöld fyrst og fremst til staðar sem óvinurinn. Ekki er gerður mikill greinarmunur á náttúruspjöllum almennt, hvort sem það er rafmagnslína á hálendinu eða flóð í útlöndum, enda er þetta allt tengt í huga aðalpersónunnar, allt hluti af sömu frekju mannfólksins. Kona fer í stríð er ekki mynd um náttúruvernd, hnattræna hlýnun eða virkjanastarfsemi almennt, heldur fyrst og fremst stúdía á sjónarhorni einnar manneskju sem hefur fengið nóg og tekið lögin í eigin hendur.

Sannfærandi aktívisti

Myndinni tekst vel að draga fram hugsjónaheift aðalpersónunnar, án þess þó að gera hana að staðalmynd, enda er mikið lagt í persónusköpun Höllu og Halldóra gæðir hana miklu lífi. Þetta þykir mér sérstaklega mikill kostur í víðara samhengi þess hvernig aktivistar eru gjarnan framsettir í kvikmyndum, sem bilaðir, sem brotnir, sem öfgafólk, og afar sjaldan sem aðalpersónur. Halla er venjuleg manneskja, jú hún er reið og á skjön við flesta í kringum sig, og eflaust munu áhorfendur hafa skiptar skoðanir um hvort hún sé öfgafull eða ekki, en framsetning hennar sem persónu í myndinni er umfram allt eðlileg.

Ég upplifði hana sem sannfærandi aktivista og það tengist jafnframt öðru mikilvægu þema myndarinnar, sem fer kannski ekki mjög mikið fyrir, en það er spurningin um hver stýri umræðunni, þ.e. hver ræður skilgreiningum, hver ákveður hvað er gróði og hvað er missir, hvað eru öfgar og hvað þykir eðlilegt, hvort betra sé að ögra vanafestunni eða láta hana vera, og umfram allt, hvað er ofbeldi og hvað er ekki ofbeldi. Þessi mál eru til staðar í myndinni, en það er farið heldur fljótt yfir þau, t.d. í stuttri umræðu í búningsklefanum í sundi um gildi þess að láta dropann hola steininn þegar tíminn er á þrotum, en þótt myndin dvelji ekki sérstaklega við þessar spurningar eða þykist ætla að svara þeim, þá fylgja þær okkur út úr bíósalnum.

Umbreytist í útlaga

Kona fer í stríð er fallega skotin og að sjálfsögðu leikur landslagið mikilvægt hlutverk, en aldrei þótti mér það verða að óþörfu. Atriðin sem sýna Höllu með bakpokann og bogann á hlaupum um landið hafa alla burði til að verða íkonísk og landslagsskotin bera með sér öðruvísi keim en í túristavænu myndefni – landslagið er ekki bara til skrauts, það er undir eftirliti, það er vettvangur orustu og ávallt ríkir ákveðin spenna í loftinu. Halla umbreytist í útlaga á ferð sinni, einkum í seinni hluta myndarinnar, notar boga en ekki byssu, klæðist ull en ekki gerviefni, hverfur inn í umhverfið, ofan í vatn, undir sauðagæru, enn og aftur verður hún nokkurs konar ofurhetja öræfanna. Eftir því sem á líður fær hún meira að segja hálfgert ofurhetjunafn Fjallkonan.

Mynd með færslu
 Mynd: Kona fer í stríð

Halla er þó aldrei ein á ferð, því hún dregur með sér tónlistartríó um allar trissur, sem flytur kvikmyndatónlistina innan úr söguheimi myndarinnar, eins og hljómsveit á leiksviði eða grískur kór. Rétt eins og með Hross í oss fer Benedikt ekkert í felur með áhrif sín frá leikstjórum á borð við Fellini og Kusturica og sjálfsmeðvituð glettnin sem fylgir tónlistarmönnunum ber vitni um það. Ég verð að játa að fyrst um sinn átti ég erfitt með lifandi tónlistarflutninginn, fannst viðvera hljóðfæraleikaranna brjóta myndina of mikið upp, hrinda mér frá og draga úr innlifuninni, en eftir því sem á leið breyttist sú upplifun, eftir því sem tríóið fór að móta flæðið í myndinni, oft á snilldarlega vel klipptan hátt, og sérstaklega þegar þeir fara að taka virkari þátt í framvindunni. Í seinni hlutanum hefði ég alls ekki viljað missa þá.

Þó voru nokkur atriði sem ég hnaut um í myndinni, sem sagt seinheppni ferðamaðurinn sem skýtur upp kollinum á ögurstundum og virðist hafa villst úr Hross í oss yfir í þessa mynd. Handritið flýtir sér líka einum of mikið á lokasprettinum og tekur nokkuð frjálsleg stökk yfir flækjur sem ég hefði viljað staldra aðeins lengur við. En það er til marks um sterka sýn leikstjórans að ég hugsaði varla um þessa galla á meðan á áhorfi stóð, því ég var búinn að ná svo góðri tilfinningalegri tengingu við aðalpersónuna að ég var tilbúinn að fylgja fjallkonunni á ferðalaginu hvert sem var.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Skemmtileg áminning um yfirvofandi heimsendi

Kvikmyndir

Kona fer í stríð hlýtur Gyllta lestarteininn

Kvikmyndir

Kona fer í stríð fær lofsamlega dóma í Cannes

Kvikmyndir

Kona fer í stríð til Cannes