Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Konur skáldskapar

Mynd: ? / wikimedia

Konur skáldskapar

23.06.2015 - 00:05

Höfundar

Að gefnu tilefni var í þættinum Orð*um bækur hugað að konum og bókmenntum. Konum sem skrifa bækur og konur sem skrifað er um í bókmenntum. Fyrsta bókin sem út kom á Íslandi eftir konu var ljóðabókin Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur frá árið 1876.

Hundrað þrjátíu og níu árum seinna þykir það reyndar ekkert tiltökumál að konur skrifi bækur um hvað sem þeim stendur hugur til. Eigi að síður benda þær tölulegu upplýsingar sem fyrirliggjandi eru ekki til þess að jafnræði sé náð. Konur eru enn aðeins þriðjungur félaga í Rithöfundasafni Íslands og endurspeglast sá munur  til að mynda í veittum starfslaunum. Engar tölur liggja fyrir um hlutfall kvenna og karla sem persóna í skáldsögum né hvers eðlis persónur hvors kynsins fyrir sig eru. Þá er hvergi til yfirlit yfir umfjöllun um bækur kvenna annars vegar og karla hins vegar nú þegar hálfur annar áratugur er liðinn af 21. öldinni. Hitt vitum við mætavel að íslenskar konur hafa á síðustu fimmtíu árum eða svo stöðugt sótt í sig veðrið og er gróska og fjölbreytileika skáldskapar þeirra mikill.

Í hinum enskumælandi bókmenntaheimi, þ.e. í Bandaríkjunum og Bretlandi mun samkvæmt tölum halla mikið á konur og verk þeirra í allri umfjöllun, verðlaunaveitingum o.s.frv. Í Danmörku hins vegar hefur sterkur hópur skáldkvenna náð afar góðum árangri hvað vinsældir bóka þeirra varðar sem og viðurkenningar hvers konar og þá einnig góðan stuðning.