
Konur og börn myrt í ættbálkastríði
Barnshafandi konur á meðal fórnarlamba
Á sunnudag vorun fjórir karlar og þrjár konur myrt í þorpinu Munima, samkvæmt EMTV-fréttastöðinni á Papúa Nýju Gíneu. Á mánudag voru svo sextán manneskjur, allt konur og börn, brytjaðar niður í þorpinu Karida. Tvær kvennanna voru barnshafandi, samkvæmt EMTV. Ekki er vitað hver kveikjan var að þessum nýjustu blóðsúthellingum, en viðsjár hafa verið með nokkrum ættbálkum á þessu svæði árum og áratugum saman, með tilheyrandi vígaferlum.
Mannskæðustu átök um árabil
James Marape, forsætisráðherra, segir á Facebook að morðin hafi verið framin af byssumönnum úr þremur ættbálkum. Átök síðustu daga eru þau mannskæðustu sem þarna hafa orðið um langa hríð. 24 dauðsföll eru staðfest, segir William Bandi héraðsstjóri í Hela-héraði við fréttamann AFP, og óttast hann að fleiri hafi týnt lífinu.
Forsætisráðherrann Marape, sem er frá Hela-héraði, segir þetta mesta sorgardag sem hann hafi upplifað og spyr hvernig 60 lögreglumenn eigi að gæta laga og reglu í 400.000 manna samfélagi.