Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Konur mega bráðum keyra í Sádi Arabíu

12.03.2018 - 14:05
Mynd: AP / AP
Nú styttist í að konur megi í fyrsta sinn setjast í bílstjórasæti í Sádi-Arabíu, en í júní ganga í gildi lög þess efnis. Það er því í nógu að snúast hjá ökukennurum þar í landi.

Það var í lok september á síðasta ári að Salman konungur Sádi-Arabíu boðaði lagabreytingu sem heimilar konum í landinu að taka bílpróf og keyra einar síns liðs.

„Mig langar að læra að keyra bíl til að öðlast sjálfstæði. Mig langar að geta gert það sem ég vil án þess að þurfa að treysta á einhvern annan.“

Þetta segir Sara Ghouth, ein þeirra kvenna sem nú sækir ökutíma til að vera komin með ökuréttindi í júní. 

Lagabreytingin þykir runnin undan rifjum Mohammed bin Salman, sonar og arftaka Salmans konungs. Hann hefur lagt áherslu á að færa regluverk landsins nær nútímanum, meðal annars með því að leyfa konum að sækja íþróttakappleiki, leyfa tónleikahald og opna kvikmyndahús. 

Þá má færa rök fyrir því að fjölskyldulíf marga verði einfaldara ef fleiri á heimilinu mega keyra á milli staða. 

Hjónin Nour og Faisal eru sammála um það, en Faisal er nú með konu sína í æfingaakstri, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. 

Nour vill geta sótt börnin sín sjálf og skutlað þeim á milli staða, vill geta keyrt sjálf til vinnu og farið akandi í frí ef henni sýnist svo. Faisal tekur undir að það einfaldi margt, núna sé bæði móðir hans og þrjár systur hver með sinn bílstjórann til að koma sér á milli staða. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV