Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Konur kjósa frekar VG, karlar Sjálfstæðisflokk

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á morgun verður gengið til kosninga. Um 250 þúsund eru á kjörskrá og ef miðað er við kjörsóknina í fyrra, sem var rúmlega 79%, má búast við því að um 197 þúsund kjósendur mæti á kjörstað og ráðstafi atkvæði sínu.  Gera þeir það eins og í fyrra?  Má greina fylgni við kyn, menntun og tekjur þegar kemur að því að velja flokk? 

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur meiri hylli hjá körlum en konum en hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði snúast hlutföllin við. Miklu fleiri konur ætla að kjósa VG en karlar. 

28% karla  í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en 22% kvenna. Vinstri græn njóta hylli 22% kvenna en bara 12% karla í sömu könnun. Pírata ætla heldur fleiri karlar að kjósa en konur eða 10% karla og 8% kvenna. Hjá öðrum flokkum er ekki marktækur munur milli kynja.

Hylli Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Flokks fólksins fer vaxandi eftir aldri svarenda en því er öfugt farið hjá Vinstri-grænum, Pírötum og Viðreisn.

Svarendum er líka skipt upp eftir menntun og tekjum. Þar er áberandi að eftir því sem fjölskyldutekjur hækka vex dálæti á Sjálfstæðisflokki og Viðreisn en VG og Flokkur fólksins eru vinsælustu flokkarnir hjá þeim sem eru með fjölskyldutekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði. 

Þegar horft er til menntunar kemur í ljós að 30% þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi ætla að velja Sjálfstæðisflokkinn, 19% háskólamenntaðra. Í þessari flokkun er líka töluverður munur á VG og Sjálfstæðisflokknum, 12% þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi segjast velja VG, 21% háskólamenntaðra. 

Flæði kjósenda milli flokka

Í könnun Gallups er líka spurt hvað fólk kaus í kosningunum í fyrra og hvað er líklegast að verði fyrir valinu nú. Af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í fyrra og ætla að velja annað nú er mest hreyfing til Miðflokksins. 

Kjósendur, sem völdu Viðreisn 2016 en hugnast það ekki nú, ætla sumir að halla sér að Samfylkingu en virðast líka dreifast á Sjálfstæðisflokk, Miðflokkinn, Framsóknarflokk eða Pírata. 

Framsóknarflokkurinn naut meiri hylli í fyrra en í skoðanakönnunum nú og virðist sem þyngstur sé straumurinn þaðan í Miðflokkinn og kemur kannski ekki á óvart miðað við uppruna hins nýja flokks. 

Svo er að sjá að þeir sem kusu Pírata í fyrra og ætla að kjósa annað nú séu líklegastir til að kjósa VG í ár, Samfylkingu þar næst og dreifast svo á alla flokka. 

Hjá þeim sem vilja nú kjósa annað en þá Björtu framtíð sem varð fyrir valinu í fyrra sýnist helst líklegt að þeir kjósi Samfylkingu eða VG.

Nokkuð er um að fólk, sem kaus VG í fyrra, ætli að kjósa Samfylkinguna. Þá er svo að sjá að töluverður hópur kjósenda sem nú stefna í átt til Flokks fólksins hafi kosið eitthvað annað en þá flokka sem komu mönnum á þing í síðustu þingkosningum. 

Þjóðarpúlsinn var tekinn um net og síma frá 23.-27. október, í úrtakinu vori 3.848 og 55% svöruðu.