Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Konur greiða hundruð þúsunda í „túrskatt“

30.09.2015 - 22:34
Mynd: Skjáskot / RÚV
Íslenskar konur greiða um 230 þúsund krónur í skatt á ævinni, sem karlmenn losna algerlega við að borga. Þetta er sá virðisaukaskattur sem gera má ráð fyrir að kona greiði af þeim dömubindum og túrtöppum sem hún notar um ævina.

 Það er bannað að mismuna körlum og konum, en kynin búa við ólíka líffræði. Konur hafa blæðingar um það bil einu sinni í mánuði, yfirleitt frá því á barnsaldri og fram á sextugsaldur - og hafa lítið val um það. Kona hefur líka lítið val um það hvort hún kaupir dömubindi, tappa eða álíka hreinlætisvörur á meðan hún er á blæðingum. Og það er ekki ókeypis.

Mótmæla túrskatti

Ef gert er ráð fyrir að kona verji rúmum 2.000 krónum á mánuði í bindi og tappa, þá nemur upphæðin um 26.000 krónum á ári. Það gera samtals nærri 1,2 milljónir, miðað við að kona hafi blæðingar í 45 ár af ævi sinni. Vörurnar eru í efra virðisaukaskattsþrepinu, og því má gera ráð fyrir að kona greiði 229.460 krónur í virðisaukaskatt af blæðingum sínum um ævina.

Í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu hefur farið fram lífleg umræða um hvort túrskatturinn svonefndi - skattur á tappa og bindi - feli í sér kynjamisrétti. Kanadíska þingið felldi skattinn alveg niður í sumar.

Engin munaðarvara

Katrín Anna Guðmundsdóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu um kynjaða fjárlagagerð, segir skatt á blæðingar vekja spurningar: „Í þessu tilviki er náttúrulega klárlega um að ræða líffræðilegt hlutverk kvenna sem karlar hafa ekki. Það eru bara konur sem fara á blæðingar. Þess vegna er þetta skattur sem konur borga umfram karla, þeir þurfa aldrei að borga þennan skatt.“

Í sumum löndum hafi dömubindi verið skattlögð eins og munaðarvara, sem sé fjarri lagi.

„Þetta er nauðsynjavara sem konur verða að hafa aðgang að, þannig að mér finnst út frá kynjasjónarmiðum, að á meðan við höfum þrepaskipt virðisaukaskattskerfi að við myndum setja þetta í annaðhvort lægra þrepið eða gera þetta undanskilið virðisaukaskatti,“ segir Katrín.

Yfirleitt séu undanþágur ekki álitnar æskilegar í skattkerfinu, en athygli fjármálaráðuneytisins hafi nú verið vakin á túrskattinum á Íslandi.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV