Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Konur fái að taka ákvörðun um þungunarrof

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Konum verður veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort þær ali börn fram að lokum 18. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggi að baki, verði frumvarp frá heilbrigðisráðherra að lögum. Einnig er lagt til að hugtakið þungunarrof komi í stað fóstureyðingar. Alls 27 umsagnir bárust nefnd um heildarendurskoðun laganna.

Í gær birti velferðarráðuneytið drög að frumvarpinu til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Verði það að lögum er heimild til þungunarrofs rýmkuð fram að lokum 18. viku. Í gildandi lögum er þungunarrof heimilt fram í 16. viku. Við vinnslu frumvarpsins kom í ljós að tölfræði annarra ríkja með sambærilega löggjöf bendir til þess að konur dragi það ekki að óska eftir þungunarrofi þó heimild til þess sé rýmkuð og svo virðist sem það hafi ekki áhrif á fjölda kvenna sem fari í þungunarrof.

Krafa um skriflegt leyfi læknis

Þá kemur fram að þó aðgengi að fóstureyðingum hafi talist gott hér á landi hafi talsvert borið á gangrýni á níundu, tíundu og elleftu grein gildandi laga. Níunda greinin listar ástæður sem heimila fóstureyðingar. Í tíundu grein segir að fóstureyðing skuli framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku. Fóstureyðing skuli aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngu nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður. Þá kveður ellefta grein á um það að áður en fóstureyðing megi fara fram verði að liggja fyrir skriflega rökstudd greinagerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa.

Einnig er lagt til að gildandi ákvæði um að sé þess kostur skuli maðurinn taka þátt í umsókn konunnar um þungunarrof, nema sérstakar ástæður mæli gegn því, verði fellt brott og ákvarðanataka um þungunarrof verði einungis á hendi þungaðrar konu.

Flestar umsagnir nefndar jákvæðar

Tildrög frumvarpsins eru að heilbrigðisráðherra skipaði nefnd 2016 sem vann að heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndinni bárust 27 umsagnir og í drögum frumvarpsins kemur fram að heilt yfir hafi endurskoðun laganna verið fagnað.

Nítján umsagnir bárust frá einstaklingum en hinar komu frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Siðmennt, Landssamtökunum Þroskahjálp og Félagi áhugafólks um downs-heilkenni, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK), Kvenréttindafélagi Íslands og Umboðsmanni barna. Í umsögnum frá einstaklingum var jafnan hvatt til lögfestingar á auknum réttindum kvenna til að taka sjálfar ákvarðanir um hvort þær hygðust ganga með barn eða ekki. Þó bárust einnig umsagnir frá einstaklingum sem töluðu fyrir aukinni aðkomu föður að ákvarðanatökunni og að löggjöf um þungunarrof yrði hert og það jafnvel gert ólögmætt.

Hugtakið fóstureyðing gildishlaðið

Í frumvarpinu er þungunarrof skilgreint sem læknisaðgerð með lyfjameðferð eða skurðaðgerð sem framkvæmd er að beiðni konu í því skyni að binda endi á þungun hennar. Í gildandi lögum er orðið fóstureyðing notað. Í frumvarpinu kemur fram að það orð sé talið gildishlaðið. Sambærileg orðanotkun þekkist ekki í nágrannalöndum okkar né í ensku. Lagt er til að þeirri orðanotkun verði hætt og hugtakið þungunarrof tekið upp. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Siðmennt taka undir þetta í sínum umsögnum.

Þá er lagt til að gerð verði krafa um fræðslu samhliða aðgerðinni og konum skuli boðið stuðningsviðtal bæði fyrir og eftir þungunarrof. Eftir lok 18. viku þungunar er lagt til að þungunarrof verði einungis heimilt ef líf konu er stefnt í hættu eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að markmið nýrra laga sé að tryggja að sjálfsforræði kvenna verði virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir konur sem óska eftir þungunarrofi.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV