Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Konur eru ennþá hálf-ósýnilegar“

19.06.2018 - 20:36
Mynd: Unga Ísland / Unga Ísland
Rithöfundinum Auði Haralds finnst að Ísland eigi langt í land með að ná fullu jafnrétti og gefur lítið fyrir skrum og markaðssetningu á Íslandi sem jafnréttisparadís. Auður var gestur Síðdegisútvarpsins af tilefni kvennadagsins 19. júní.

Á maður að segja til hamingju með daginn? „Nei ekki við mig. Þú getur gert það við einhvern annan, en ekki mig. Ég þigg það ekki. Vegna þess að ég vil fyrst fá jöfn réttindi. Og ekki bara að það fréttist til útlanda að við séum með þau, heldur vil ég fá þau,“ segir Auður í viðtali við Síðdegisútvarpið. „Ég held að bjartsýnin sé okkur meðfædd. Annars hefðum við öll drepist og það fyrr,“ segir Auður um sýn Íslendinga á jafnréttisþróunina. „Ég held ekki að barnabörnin mín lifi það,“ segir Auður aðspurð um hvenær fullu jafnrétti verði náð. „En það tekur kannski skemmri tíma ef við rekum á eftir henni og reynum að stöðva menn sem halda að þeir séu einhver alpha-dýr úti í skóginum.“

En hvað hefur þá breyst á síðustu 40 árum að hennar mati? „Ég held það sé aðallega það að þegar ég kem í Brynju, þá fæ ég almennilega afgreiðslu. Þegar ég kom í Húsasmiðjuna fyrir 40 árum var komið fram við mig eins og ég væri fífl í bleyju og ekki fjárráða.“ Það gerist þó ennþá oft að þegar kona hafi beðið eftir afgreiðslu heillengi þá snúi afgreiðslumaðurinn sér að fyrsta karli sem kemur aðvífandi eftir að hann losnar. „Konur eru ennþá hálf-ósýnilegar. Tala nú ekki um ef þær eru komnar langt yfir tvítugt, til dæmis orðnar 31 árs. Um leið og þær eru komnar yfir fertugt, þá er það bara „Af hverju ferð þú út? Hefurðu ekki sómakennd? Haltu þig heima hjá þér! Þú ert ljót. Ekkert gaman að ríða svona. Burt!“ Þetta er viðhorfið,“ segir Auður sem er mikið niðri fyrir.

Auður segir að jöfn laun séu bara brot af því sem skiptir máli, það liggi enn þyngra á konum að njóta ekki jafnrar virðingar og ekki vera taldar marktækar. „Þú getur brotið manneskju niður með því að láta hana alltaf vita að hún sé lélegri en tittlingarnir í kringum hana.“ Auður telur að netvakningar eins og #metoo séu mikilvægar til að ýta við almennri vitund og fái líklega einhverja karla til að sjá málin í nýju ljósi og gæta sín. Mikilvægasta baráttan fari samt fram í uppeldi drengja, það þurfi að kenna þeim að það sé í lagi að vera tilfinningaverur, annars muni þeir koma illa fram við konur og börn þegar þeir eldast. „Baráttan verður að fara fram í smáskrefum og stöðugt. Það þýðir ekkert að hafa bara einn hátíðisdag á ári. Það hjálpar en hann einn er ekki að fara að bjarga neinu.“

Rætt var við Auði Haralds í Síðdegisútvarpinu.

davidrg's picture
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn