Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Konungsbók Eddu tilnefnd á heimsminjaskrá

Konungsbók Eddu tilnefnd á heimsminjaskrá

08.03.2016 - 20:23

Höfundar

Fjórar merkar ritheimildir hafa verið teknar inn á landsskrá Íslands um minni heimsins og vonir standa til að einhverjar þeirra rati inn á heimsminjaskrá UNESCO. Einn þessara gripa er Konungsbók Eddu sem mergir telja einn merkasta grip sem varðveittur er á Íslandi.

Gísli Sigurðsson er rannsóknarprófessor við Árnastofnun en hann segir að saga handritsins sé ekki þekkt þar til það ratar í hendur Brynjólfs biskups í Skálholti. 

Konungsbók Eddukvæða geymir eina texta flestra þeirra kvæða sem þar eru varðveitt. Miðaldakvæði og sögur eru yfirleitt til í fleiri en einni gerð. Þetta handrit er einstakt því ef það væri ekki til þá væru öll kvæðin um norrænu goðin og þessar samgermönsku hetjur, sem að sagt er frá í Konungsbók Eddukvæða, þá væru þau hvergi til.

Einnig er eiginhandrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum tilnefnt. Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafnsins, segir að saga handritsins sé þekkt.

Það er skrifað af Hallgrími Péturssyni sjálfum 1659 og hann sendir það síðan til Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskupsdóttur 1661.

Auk þessara tveggja handrita var svo kallað kvikfjártal Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 tilnefnt sem og túnakort sem gerð voru af nær öllum bæjum á Íslandi frá 1916-1929. Á kortunum má meðal annars sjá teikningar af rústum og tóftum sem gefa til kynna að þar leynist fornminjar. Þau eru þess vegna mikið notuð af fornleifafræðingum, segir Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður.

Hér er dæmi úr Fljótshlíðinni um kort yfir bæinn Hlíðarenda. [...]Og hér segir sagt að sé skálatóft Gunnars og steinar úr skálaveggjum. Og það er auðvitað ljóst að þetta er Gunnar á Hlíðarenda sem verið er að tala um og þá er það altalað á þessum tíma að rústir hans skála séu sem sagt hér.