Konunglegar tískureglur

Mynd: EPA-EFE / EPA

Konunglegar tískureglur

24.04.2019 - 11:34
Sunnudaginn 21. apríl varð Elísabet Bretadrottning 93 ára gömul. Litríkar dragtir og hattar í stíl eru orðin einkennismerki hennar en á bak við hverja flík liggja konunglegar reglur og viðmið sem gaman er að velta fyrir sér.

Karen Björg Þorsteinsdóttir ræddi áhugaverðar staðreyndir um klæðnað drottningarinnar í tískuhorni vikunnar. Þá fyrstu gætu einhverjir kannast við en í konungsfjölskyldunni er blátt bann við litríku naglalakki. Þetta virðist þó ekki hafa hrjáð drottninguna þar sem hún hefur notað sama naglalakkið, Ballet slippers frá Essie, í heil 28 ár. 

Það sem færri kannski vita er að taskan hennar Elísabetar er ekki bara taska, heldur notar hún hana líka til að senda merki til lífvarða sinna. Ef hún er einhvers staðar að borða og leggur töskuna sína upp á borðið þýðir það að kominn sé tími til að fara. Ef þú lendir síðan einhvern tíman í því að vera að tala við drottninguna og hún færir töskuna úr annari hendinni yfir í hina þýðir það „mig langar að hætta að tala við þig.“

Litríku dragtirnar eru ekki útskýrðar með ást drottningarinnar á skærum litum heldur gera þær það að verkum að auðveldara er að koma auga á hana í mikilli mannmergð. Þetta er hugsað bæði fyrir lífverði hennar og almenning sem geta þannig auðveldlega borið kennsl á hennar hátign.

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Litríkar dragtir, töskur sem senda merki og naglalakkið fræga sem Elísabet notar.

En drottningin er ekki sú eina sem fylgi reglum heldur setur hún líka reglur fyrir aðra. Hún er til að mynda ekki hrifin af fylltum hælum sem Kate Middleton, hertogaynjan af Cambridge, notar mikið. Af virðingu við drottninguna notar hún þó ekki slíka skó þegar hún er í kringum hana. Elísabet hefur líka sitt að segja um brúðarkjóla sem notaðir eru í fjölskyldunni en þá þarf hún nefnilega að samþykkja. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Kate og Meghan geta ekki klæðst hverju sem er í kringum drottninguna.

Til þess að hátignin lendi svo örugglega ekki í Marilyn Monroe augnabliki og pilsið fjúki upp í breskum haustvindum þá lætur hún þyngja pilsin og kjólana sína að neðan. Síðast en ekki síst þá er hún með manneskju í vinnu við það að ganga til skóna sína. Það kemur svo sem ekki á óvart enda er hún upptekin 93 ára kona sem hefur ekki tíma til að fá hælsæri og blöðrur. 

Hlustaðu á tískuhorn vikunnar í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.