Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Könnuðu starfsmannamál á Hótel Adam

11.02.2016 - 19:49
Mynd með færslu
Hótel Adam er við Skólavörðustíg í Reykjavík.  Mynd: ja.is - skjáskot
Eftirlitsmenn frá Eflingu stéttarfélagi og Matvæla- og veitingafélagi Íslands fóru í eftirlitsferð á Hótel Adam við Skólavörðustíg í dag, í þeim tilgangi að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Af tveimur starfsmönnum á vakt var annar með vinnustaðaskírteini, hinn ekki. Eigandinn fær um viku til að koma málum í samt lag, annars má hann eiga von á sektum.

Hótel Adam við Skólavörðustíg hefur verið á milli tannanna á fólki undanfarna daga eftir að gestum hótelsins var ráðið frá því að drekka kranavatn, og mælt með því að þeir keyptu í staðinn vatn á flöskum sem hótelið seldi.

Í morgun innsiglaði lögreglan átta herbergi á hótelinu. Þrjú herbergi til viðbótar verða innsigluð þegar gestir í þeim hafa lokið dvöl sinni. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni komu fram ábendingar um að fjöldi gesta og gistirýma færi fram úr leyfilegu hámarki. Eldvarnaeftirlitið gerði líka athugasemdir vegna sófa sem var fyrir neyðarútgangi auk þess sem árlegri yfirferð á brunaviðvörunarkerfi var ekki lokið. 

Eftir hádegi í dag fóru svo fulltrúar frá Eflingu stéttarfélagi og Matvæla- og veitingafélagi Íslands í eftirlit á hótelið.

„Við erum að athuga hvort fólk sé með vinnustaðaskilríki og skráum niður kennitölur þeirra sem starfa. Sú skráning fer víða, í skattinn, Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun, þannig að það er verið að sporna við svartri atvinnustarfsemi með þessu, að hafa vinnustaðaskírteini fyrir starfsfólkið,“ segir Níels S. Olgeirsson, formaður Matvís.

Hvað kom út úr þessari heimsókn á Hótel Adam?

„Annar starfsmaðurinn var með skírteini en hinn ekki. Ekki einu sinni íslenska kennitölu.“ 

Níels segir að staðið hafi til að heimsækja Hótel Adam um nokkurt skeið og það tengist ekki umfjöllun um hótelið. Ekki hafi náðst í eiganda hótelsins sem fái nú um það bil viku til að koma sínum málum á hreint.

„Ef hann uppfyllir ekki skilyrðin sem eru með vinnustaðaskírteini fær Vinnumálastofnun afrit af því og þá geta menn átt á hættu allt að 100.000 króna sekt á dag.“