Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Könnuðu áhrif friðlýsingar Drangajökulsvíðerna

18.01.2019 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Friðlýsing Drangajökulsvíðerna er líkleg til að styrkja umtalsvert samfélag og náttúru í Árneshreppi, samkvæmt niðurstöðu skýrslu sem unnin var fyrir félagasamtökin ÓFEIG náttúruvernd. Í skýrslunni var borið saman áhrif af friðlýsingu víðernanna, þess að gera ekki neitt og virkjunar Hvalár.

Ráðgjafafyrirtækið Environice vann skýrsluna fyrir náttúruverndarsamtökin í desember 2018 og núna í janúar. 

Víðernin sem skýrslan fjallar um eru samtals um tæpir tólf hundruð ferkílómetrar að flatarmáli og ná allt frá Steingrímsfjarðarheiði í suðri að mörkum Hornstrandafriðlandsins í norðri. Lagt er til að allt þetta svæði verði friðlýst sem óbyggð víðerni samkvæmt 46. grein náttúruverndarlaga, það er sem stórt landsvæði „þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum“. Friðlýsing miði að því að „varðveita einkenni svæðisins, t.d. að viðhalda fjölbreyttu og óvenjulegu landslagi, víðsýni og/eða vernda heildstæð stór vistkerfi, og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja”.

Í tilkynningu frá Ófeigu kemur fram að í skýrslunni sé komist að þeirri niðurstöðu að friðlýsing Drangajökulsvíðerna hefði mun jákvæðari efnahagsleg áhrif á samfélagið til langs tíma en virkjun gæti mögulega haft.

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að friðlýsing myndi leiða af sér töluvert af varanlegum störfum í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Störf sem yrðu til við byggingu Hvalárvirkjunar yrðu fleiri til skamms tíma, en engin að loknum framkvæmdum. Sveitarfélagið myndi sjá auknar tekjur af byggingu virkjunar til skemmri tíma en missa hluta af aðdráttarafli svæðisins í leiðinni. 

Íslenska ríkið hefur gert kröfu um Drangajökul sem þjóðlendu og  fellur það að áliti ÓFEIGAR vel að friðlýsingu, segir í tilkynningunni. Drangajökull og umhverfi hans njóti þegar hverfisverndar samkvæmt ákvörðunum Strandabyggðar og Ísafjarðarbæjar og Náttúrufræðistofnun Íslands leggi til friðlýsingu jökulsins og umhverfis hans. 

Rætt verður við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing um skýrsluna í fréttum sjónvarps í kvöld. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV