Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kona fer í stríð tilnefnd til verðlauna

Mynd með færslu
 Mynd: Kona fer í stríð

Kona fer í stríð tilnefnd til verðlauna

21.08.2018 - 11:30

Höfundar

Kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Þetta var tilkynnt á Alþjóðlegu norsku kvikmyndahátíðinni í Haugasundi rétt í þessu. Þá er Vetrarbræður, mynd Hlyns Pálmasonar tilnefnd sem framlag Danmerkur.

Kona fer í stríð hefur notið hylli á kvikmyndahátíðum erlendis en hún átti til að mynda mikilli velgengni að fagna í Cannes. Þá hefur Vetrarbræður, dönsk framleiðsla íslenska leikstjórans Hlyns Pálmasonar, gengið vel á kvikmyndahátíðum og hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna bæði í heimalandinu og á erlendum vettvangi. Í dag bárust einnig fréttir af því að Kona fer í stríð hefur verið tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent við hátíðlega athöfn 31. október en úrslitin eru kynnt í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló. Auk kvikmyndaverðlauna eru verðlaun afhent í flokkum bókmennta, barna- og unglingabókmennta og tónlistar. Einnig eru veitt umhverfisverðlaun.

Kvikmyndaverðlaunin verða veitt mynd sem hefur menningarlegt gildi, er framleidd á Norðurlöndum, er í fullri lengd og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum. Tilnefndar eru kvikmyndir frá fimm löndum, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi og situr þriggja manna dómnefnd í forsvari fyrir hvert land. Í íslensku dómnefndinni sitja þau Hilmar Oddsson, Börkur Gunnarsson og Helga Þórey Jónsdóttir.

Verðlaunaféð nemur 350 þúsund dönskum krónum í hverjum flokki fyrir sig.

Kynningarstiklur allra tilnefndra kvikmynda má sjá hér :

Mynd: Nordic Council Film Award / Skjáskot

Tilnefningar 
 

Ísland: Kona fer í stríð
Leikstjórn, handrit og framleiðsla: Benedikt Erlingsson
Handrit: Ólafur Egill Egilsson
Framleiðendur: Marianne Slot og Carine Leblanc

Danmörk: Vetrarbræður
Leikstjórn og handrit: Hlynur Pálmason
Framleiðendur: Julie Waldersdorph Hansen, Per Damgaard Hansen og Anton Máni Svansson

Finnland: Armomurhaaja [ísl. Góðhjartaði drápsmaðurinn]
Leikstjórn og handrit: Teemu Nikki
Framleiðendur: Jani Pösö og Teemu Nikki

Noregur: Thelma
Leikstjórn og handrit: Joachim Trier
Handrit: Eskil Vogt
Framleiðandi: Thomas Robsahm

Svíþjóð: Korparna [ísl. Hrafnar]
Leikstjórn, handrit, framleiðsla: Jens Assur
Framleiðsla: Jan Marnell og Tom Persson

Verðlaun Norðurlandaráðs

Tilnefningar til hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs eru kynntar ein af annarri yfir árið. Tilnefningar til bókmenntaverðlaunanna þetta árið hafa verið kynntar, í almennum flokki og í flokki barnabókmennta, auk tónlistarverðlauna.

Skáldsagan Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur og ljóðabókin Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson eru tilnefndar fyrir Íslands hönd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í flokki barnabókmennta eru tilnefndar Vertu ósýnilegur - Flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Skrímsli í vanda eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Daníel Bjarnason og Hugi Guðmundsson eru tilnefndir til tónlistarverðlaunanna, Daníel fyrir óperuverkið Brothers og Hugi fyrir kammeróperuna Hamlet in Absentia. 

Upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vef Norðurlandaráðs.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Næsta mynd verður útópía

Klassísk tónlist

Hugi og Daníel tilnefndir

Norðurland

Hafið í brennidepli á þingi Norðurlandaráðs

Kvikmyndir

Vetrarbræður vinnur Bodil-verðlaunin