Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kona fer í stríð fær lofsamlega dóma í Cannes

Mynd með færslu
 Mynd: Kona fer í stríð

Kona fer í stríð fær lofsamlega dóma í Cannes

13.05.2018 - 11:39

Höfundar

Kvikmyndin Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes á föstudag hefur fengið frábæra dóma hjá erlendum miðlum um helgina.

Myndin segir frá miðaldra kórstjóranum Höllu sem Halldóra Geirharðsdóttir leikur, en hún fremur skemmdarverk á raflínum til álvera í hjáverkum. „Gullfallega tekin og gáfuleg „feel good“-mynd sem setur mennskuna í forgrunn og ræðir út frá henni mikilvæg pólitísk málefni,“ segir í Variety, helsta tímariti kvikmyndaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Þá spáir tímaritið myndinni mikilli velgengni á hátíðinni og alþjóðlega. 

Gagnrýnandi Hollywood Reporter segir að myndin sé „tilkomumikið næsta skref eftir hina skemmtilega sérvitru frumraun Hross í oss.“ Þá fer hann fögrum orðum um kvikmyndatöku Bergsteins Björgúlfssonar og tónlist Davíðs Þórs Jónssonar sem er leikin af hljómsveit sem er bókstaflega þátttakandi í sumum atriðunum. 

Á vef Cineuropa segir að myndin sé háfemínísk og stórskemmtileg, og Screen Daily hrósar Halldóru Geirharðsdóttur í hástert, segir að hún eigi stórleik sem kórstjórinn og umhverfishryðjuverkamaðurinn Halla auk þess sem hún leikur tvíburasystur hennar. 

Kona fer í stríð er önnur kvikmynd Benedikts Erlingssonar í fullri lengd á eftir Hross í oss sem kom út árið 2013. Kona fer í stríð var valin til þátttöku á Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám kvikmyndahátíðarinnar í Cannes.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Einn dagur í frumsýningu í Cannes

Kvikmyndir

Kona fer í stríð til Cannes