Kómískur mannætuleikur

Mynd:  / 

Kómískur mannætuleikur

21.01.2019 - 15:36
Stúdentaleikhúsið hefur sýningar á verkinu Igíl Redug eftir Natan Jónsson nú á miðvikudag. Leikarar úr sýningunni lýsa henni sem kómískum mannætuleik.

Andri Freyr og Ernir Þór sitja í stjórn Stúdentaleikhússins og eru leikarar í sýningunni. Þeir vildu ekki gefa mikið upp um það hvort leikarar væru étnir á sviðinu en gátu staðfest að eitthvað yrði nartað og smakkað. 

Andri segir verkið einnig fjalla um fólk sem er að leita að sínum tilgangi í lífinu og tekur í kjölfarið skrítnar og örvæntingarfullar ákvarðanir sem verða til þess að það kemur sér í slæmar aðstæður. 

Verkið hefur verið í ferli síðan í október en hópurinn samanstendur af ungu fólki sem á það sameiginlegt að finnast gaman að leika og koma fram. Fyrsta sýning er nú miðvikudaginn 23. janúar en sýndar verða alls átta.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um sýninguna og Stúdentaleikhúsið á Facebook og á Instagram. Miðasala á sýninguna fer fram á tix.is. Hlustaðu á viðtalið við Andra og Erni í spilaranum hér fyrir ofan.