Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Koma til móts við bréf Gunnars Braga

27.04.2015 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráðherraráð Evrópusambandsins hefur farið yfir bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti formanni ráðherraráðs Evrópusambandins í síðasta mánuði og hyggst koma til móts við þau sjónarmið sem þar er lýst.

Gunnar Bragi sagði í bréfinu að afstaða ríkisstjórnarinnar væri sú að Ísland hygðist ekki halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ekki bæri að líta á Ísland sem umsóknarríki.

Í svarbréfi Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem gegnir formennsku í ráðherraráðinu, til íslenskra stjórnvalda segir að sambandið hafi tekið mið af bréfi Gunnars Braga. Í því ljósi mundi ráðherraráðið gera ákveðnar breytingar á verklagi sínu til að koma til móts við íslensk stjórnvöld. Rinkevics tekur fram að Evrópusambandið leggi enn áherslu á samskipti sín við Ísland í gegnum EES og Schengen.

Gunnar Bragi fagnar svarbréfi Rinkevics. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er haft eftir honum að með bréfinu hafi fengist skýrleiki í málið og það sé fagnaðarefni. „Bréf lettneska utanríkisráðherrans staðfestir niðurstöðu fundar ráðherraráðs ESB í liðinni viku. Það hefur legið ljóst fyrir að ríkisstjórnin lítur svo á að Ísland sé ekki umsóknarríki að ESB og í bréfi mínu til formanns ráðherraráðs ESB var þetta áréttað og sambandið beðið um að laga verklag sitt að því. Ekki hefur verið ástæða til að ætla að annað væri uppi á teningnum. Með efni þessa svarbréfs höfum við fengið skýrleika í málið og er það fagnaðarefni.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV