Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Koma á samráðsvettvangi á sviði viðskipta

15.02.2019 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Á blaðamannafundi fyrir stundu sagðist Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa rætt viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna á fundi sínum með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann sagði enn ónotuð tækifæri í viðskiptum milli landanna og þeir hefðu ákveðið að koma á samráðsvettvangi á sviði viðskipta milli ríkjanna. Pompeo sagðist vonast til að það bæri fljótlega ávöxt.

Guðlaugur Þór og Pompeo voru spurðir hvort það væri upphafið að einhverju meira, fríverslunarsamningum eða öðru. Þeir útilokuðu það ekki og sögðu að þó að þeir geri sér grein fyrir að það séu hindranir í veginum standi vonir þeirra til meira og áframhaldandi viðskiptasambands.

Í ræðum sínum lögðu Pompeo og Guðlaugur Þór áherslu á náin tengsl Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina. „Við erum bandarískari en aðrar Evrópuþjóðir," sagði Guðlaugur. Löndin séutengd gegnum sameiginlegan arf en einnig grundvallarviðmið og gildi sem þurfi að vernda.

Þeir töluðu einnig báðir um að landfræðilegar breytingar í Norðurhöfum, sem meðal annars opna nýjar flutningaleiðir, kalli á frekari samvinnu landanna, til dæmis á sviði leitar og björgunar. Löndin eigi bæði hagsmuna að gæta á þessu svæði og nauðsynlegt sé að efla samstarfið.

Pompeo sagðist vonast til að geta eflt efnahagsleg tengsl þjóðanna og minntist á að Bandaríkin séu orðin stærsta einstaka viðskiptaþjóð Íslands. „Það verða alltaf áskoranir og við getum ekki tekið viðskiptasambönd sem sjálfsagðan hlut," sagði Pompeo. Stjórnvöld í Bandaríkjunum vilji nú rækta aftur viðskiptasambönd sem fyrrverandi stjórnvöld hafi vanrækt. „Við munum ekki lengur taka vini, sanna bandamenn og samstarfsaðila sem sjálfsagðan hlut. Við höfum hreinlega ekki efni á að vanrækja þá. Við sækjumst líka eftir raunverulegu samstarfi við ykkur á Norðurslóðum, sem verða sífellt mikilvægari, og hlökkum til að vinna með ykkur að þeim málum. Við vitum að þegar Bandaríkin hörfa, fylla Kínverjar og Rússar í skarðið, það er óhjákvæmilegt ef við erum ekki þar. Við hlökkum til að standa þétt með Íslandi í samstarfinu á norðurslóðum," sagði Pompeo.

Auður Aðalsteinsdóttir