Kom á óvart hversu stórt skref þetta var

Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir / RÚV

Kom á óvart hversu stórt skref þetta var

21.08.2018 - 20:17
Tónlistarmaðurinn Arnór Dan Arnarson er líklegast þekktastur sem söngvari hljómsveitarinnar Agent Fresco. Nýlega gaf hann út sitt fyrsta sólólag, Stone by Stone, en það reyndist erfiðara en hann hafði búist við.

Arnór er fæddur í Reykjavík en fluttist fimm ára gamall til Danmerkur þar sem hann bjó í sextán ár. Þegar hann var um tvítugt missti hann pabba sinn úr krabbameini. Jarðarförin fór fram á Íslandi og Arnór ákvað að verða eftir hér.

„Mig langaði að læra tungumálið, vera meira með fjölskyldunni og prufa að lifa án þess að vera með öryggisnet.“ Dvölin varð hins vegar lengri en áætlað var. Planið hafði verið að búa í eitt ár á Íslandi, fá sér vinnu og vera í söngkennslu til að undirbúa sig fyrir leiklistarskólann sem hann var kominn inn í, í Danmörku. Þegar hann komst svo inn í FÍH ákvað hann að lengja dvölina um hálft ár.

Þá gripu örlögin í taumana og Arnór kynntist nokkrum strákum sem stefndu á að taka þátt í Músíktilraunum. „Þeir heyrðu mig spila lag og sendu mér e-mail um hvort að ég væri til í að vera frontmaðurinn þeirra. Þeir höfðu samt aldrei heyrt mig syngja áður.“ Úr varð hljómsveitin Agent Fresco sem tók þátt og sigraði í Músíktilraunum árið 2008.

Þegar þeir voru að semja þriðja lagið fyrir úrslitin fann Arnór að eitthvað sérstakt var í gangi og ákvað að vera lengur á Íslandi. Eftir Músíktilraunir gáfu strákarnir svo út smáskífuna Lightbulb Universe og stuttu síðar plötuna A Long Time Listening.

„Þetta er plata sem er tileinkuð pabba. Var mjög sérstök og geggjað tækifæri til að fara í gegnum tilfinningarnar og búa til eitthvað jákvætt úr þeim.“

Agent Fresco fór svo að spila mikið, bæði í Evrópu og hér heima. Arnór fékk líka tækifæri til að vinna með Ólafi Arnalds, bæði við plötu og í tónlistinni fyrir sjónvarpsþættina Broadchurch.

Eftir að hafa lent í líkamsárás og staðið í ströngu ferli við að kæra í eitt og hálft ár ákvað Arnór að taka allt sem hafði gerst og setja í plötu, Destrier, sem Agent Fresco gaf svo út árið 2015. Ferlið var þó ekki auðvelt og eftir á að hyggja segir Arnór að hann hefði átt að stoppa og jafna sig á öllu því sem hafði gerst.

„Ég vissi ekki að kvíði gæti haft svona mikil áhrif á mig, líkamlega líka. Ég fór að missa röddina og skildi ekkert hvað var í gangi.“

Núna hefur Arnór snúið sér að því að gera sólóefni, þó svo að Agent Fresco sé enn í fullu fjöri. Stone by Stone kom út fyrr í mánuðinum og þrátt fyrir að hafa gefið út fjöldann allan af lögum með Agent Fresco var ekki auðvelt fyrir Arnór að gefa út lagið.

„Það kom mér á óvart hvað þetta var stórt skref, ég hélt að ég væri meira kúl með þetta, gat ekki einu sinni ýtt á post.“

Agent Fresco er enn í fullu fjöri en strákarnir eru á leið í fjögurra vikna Evróputúr. Það er svo von á meira efni frá þeim og mögulega plötu á næsta ári. Arnór segist líka stefna að því að gefa út meira sólóefni á næstunni þó svo að engu sé slegið föstu.

Arnór var mánudagsgestur í Núllinu og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.