Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Koltvíoxíð verður að grjóti

Útblástur í Sjanghæ getur nú orðið að grjóti á Hellisheiði. Við Hellisheiðarvirkjun hefur verið settur upp kolefnisgleypir sem gleypir koltvíoxíð úr andrúmslofti, því er svo dælt ofan í jörðina þar sem það breytist í grjót. 

Kolefnisgleypir við Hellisheiðarvirkjun, sem tekinn var í notkun í dag, gæti markað tímamót í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hann gleypir koltvíoxíð úr andrúmslofti. Það er svo leyst upp í vatni og því dælt niður í jörðina á allt að tveggja kílómetra dýpi. Þar breytist það í stein og ætti því ekki að menga andrúmsloftið frekar. 

Kolefnisgleypirinn er samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur og svissneska fyrirtækisins Climeworks. Að því komu einnig Háskóli Íslands, Columbia háskólinn í New York í Bandaríkjunum og Franska rannsóknarráðið.

Tímamót í baráttu við loftslagsbreytingar

Kolefnisgleypirinn og niðurdælingin markar ákveðin tímamót í baráttunni gegn loftslagsbreytingum að sögn Eddu Sif Aradóttur, verkefnastjóra þessa verkefnis, CarbFix, hjá Orkuveitu Reykjavíkur. „Núna erum við í fyrsta skipti á heimsvísu að draga koltvíoxíð beint úr andrúmslofti í gegnum kolefnisgleypinn. Síðan tökum við í Carpfix við þessu hreinsaða kolefni og dælum því síðan ofan í jörðina og fjarlægjum það þannig varanlega úr andrúmsloftinu,“ segir Edda Sif.

Gleypir 50 tonn á ári

Kolefnisgleypirinn verður við Hellisheiðarvirkjun í eitt ár í tilraunaskyni. Áætlað er að árlega gleypi hann 50 tonn af koltvíoxíði. Það er þó aðeins dropi í hafið því að árleg losun á heimsvísu er 30 til 40 gígatonn. „Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná loftslagsmarkmiðunum þá þurfum við að fara út í aðgerðir eins og að gleypa koltvíoxíð beint úr andrúmslofti eins og við erum að gera núna. Þetta verður án efa ein af lausnunum,“ segir Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, jarðfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Væri hægt að setja svona upp við stóriðju, flugvelli og hraðbrautir?

„Það sem er í rauninni fegurðin við svona kolefnagleypi er að þú þarft ekki að setja hann þar sem að mikill útblástur á sér stað. Þú fangar bara koltvíoxíð beint úr andrúmslofti þannig að það sem þú þarft er bara staður þar sem þú getur bundið koltvíoxíð á öruggan hátt. Útblástur í Sjanghæ getur orðið að steind hér á Hellisheiði,“ segir Sandra Ósk.

Segir kolefnishlutleysi ekki nóg

Svissneska fyrirtækið Climeworks hannaði kolefnisgleypinn og Orkuveita Reykjavíkur hannaði búnaðinn sem bindur koltvíoxíð í grjót. Valentin Gutknecht, markaðsstjóri Climeworks, segir að eigi að takast að halda hlýnun jarðar innan við tvær gráður, líkt og stefnt er að, sé mikilvægt að huga að því að gleypa koltvíoxíð, ekki sé nóg að huga aðeins að kolefnishlutleysi, heldur þurfi að ganga lengra.

Samvinna Orkuveitu Reykjavíkur og Climeworks hófst fyrir einu ári síðan. „Tæknin hjá okkur og CarbFix verkefni Orkuveitu Reykjavíkur fer mjög saman. Við þurfum mikinn hita til að gera þetta og hann er að finna hérna í Hellisheiðarvirkjun,“ segir Valentin. Hjá Orku náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, hefur koltvíoxíð verið bundið í jarðlögum í tæpan áratug. Það hefur verið skilið frá jarðhitagufunni sem nýtt er til rafmagns- og heitavatnsframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir