Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kolsýrt vatn að verða vinsælla en kóladrykkir

01.08.2017 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kolsýrt vatn verður á næstu árum mest seldi vöruflokkurinn á drykkjarvörumarkaðnum og fer fram úr kóladrykkjum. Þetta segir forstjóri Ölgerðarinnar.

Mikil breyting á drykkjarvörumarkaðinum

Neysla á drykkjarvörum hér á landi hefur breyst mikið á undanförnum 15 árum;  færst frá sykruðum kóladrykkjum yfir í ósykraða drykki og kolsýrt vatn.  Þetta segir Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar en hann var í viðtali við Morgunvaktina á Rás eitt í morgun.  Árið 2002 var hlutfall kóladrykkja á markaðnum 75% til 80%. 

„En þetta hlutfall hefur farið minnkandi með hverju árinu,“ segir Andri Þór.  „Og raunar var það þannig að sykraðir drykkir voru þarna allsráðandi. En eftir því sem árin líða þá minnkar hlutfall sykraðra drykkja og kóladrykkja. Og nú er svo komið að vatnsdrykkirnir, sem eru með engum kalóríum; eru bara kolsýrt vatn með bragðefnum, eru orðnir næststærsti vöruflokkurinn á drykkjamarkaði á eftir sykruðu kóladrykkjunum. Ef fer fram sem horfir þá mun sykrað kóla víkja fyrir vatnsdrykkjunum á allra næstu árum, hugsanlega á næsta ári,“ segir Andri Þór.

Fólk vildi sykraða drykki í hruninu

„Það er samt dálítið merkilegt að þessi þróun var í fullum gangi á árunum 2005 til 2007 en í hruninu fór fólk aftur í sykraða drykki.“                           

Hvers vegna?

„Ég kann engar skýringar á því, nema að fólk hafi viljað fá eitthvað fyrir peninginn sinn. Ég veit það ekki. Það var bara sykur í öllu.“

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV