Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Kólóradó leyfir sölu á maríjúana

01.01.2014 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Kólóradó varð í dag fyrsta ríkið í Bandaríkjunum til að leyfa sölu á kannabis til upplyftingar en ekki einvörðungu til lækninga. Kannabisefni eru þó enn ekki leyfð í Bandaríkjunum samkvæmt alríkislögum.

Talið er að um 30 verslanir sem bjóða kannabis til sölu fólki til dægrastyttingar hafi verið opnaðar víðsvegar um Kólóradóríki í dag en 136 hafa fengið leyfi. Salan var samþykkt í atkvæðagreiðslu sem fór fram samhliða forsetakosningunum vestanhafs í nóvember í fyrra. Fólki 21 árs og eldra er leyft að kaupa efnið.

Sala á kannabis var einnig samþykkt í atkvæðagreiðslu á sama tíma í Washington-ríki en sala hefst ekki þar fyrir enn síðla á þessu ári. Kólóradó og Washington eru meðal 20 ríkja í Bandaríkjunum sem hafa áður samþykkt sölu á maríjúana í lækningarskyni.

Búðareigendur í Kólóradó höfðu í dag útvegað sér kynstrin öll af kannabis, ráðið nóg starfsfólk til að anna eftirspurn og öryggisverði til að gæta þess að engu yrði stolið. Sömu reglur gilda um söluna og um sölu á áfengi nema að takmörk eru sett á hvað mikið hver má kaupa í einu.

Ef kaupandi sannar að hann búi í Kólóradó má hann kaupa eina únsu eða rétt rúm 28 grömm. Þeir sem eiga leið um ríkið geta aðeins keypt fjórðung úr únsu eða rétt rúm 7 grömm. Þá er aðeins hægt að reykja efnið á einkaheimilum með leyfi húsráðanda.

Kannabisefnið verður skattlagt eins og áfengi og fyrstu fjörutíu milljón dalirnir notaðir til að byggja skóla.Þeir sem gagnrýna breytinguna segja nýju lögin senda röng skilaboð til ungmenna og óttast að kannabissalan leiði til heilsu- og félagsvandamála.