Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kólera og malaría gjósa upp á flóðasvæðunum

23.03.2019 - 01:22
Erlent · Hamfarir · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrstu kólerutilfellin á flóðasvæðunum í Mósambík voru staðfest í dag, rúmri viku eftir að hitabeltisstormurinn Idai fór hamförum þar og í nágrannaríkjunum Malaví og Simbabve. Talsmaður Rauða krossins og Rauða hálfmánans í hafnarborginni Beira greindi frá þessu og varaði við því að búast megi við því að fleiri smitsjúkdómar blossi upp á flóðasvæðunum. Þar eru stór svæði enn á kafi í vatni og malaríutilfellum þegar farið að fjölga umtalsvert.

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, er í Mósambík. Hún segir mikla hættu á kólerufaraldri eins og ástandið er nú. Kólera er landlæg plága í Mósambík. Staðið vatn, rotnandi lík og dýrahræ, skortur á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, segir Fore; allt eykur þetta hættuna á meiriháttar faraldri ofan á þær hörmungar allar sem óveðrið og flóðin hafa þegar valdið.

Yfirþyrmandi neyð

Staðfest dauðsföll í löndunum þremur nálgast nú 600 og talið er víst að mun fleiri hafi látist. Elhadji As Sy, yfirmaður Rauða krossins á svæðinu, segir umfang hamfaranna og neyðarinnar yfirþyrmandi. Í Beira einni saman, 500.000 manna borg, eyðilögðust um 90 prósent allra mannvirkja. Fjöldi smærri bæja og þorpa í löndunum þremur eyðilagðist líka í flóðunum, sem lítið eru farin að sjatna enda rignir enn, þótt með hléum sé.

„Tugir þúsunda fjölskyldna hafa misst allt sitt. Börn hafa misst foreldra sína. Samfélög hafa misst skóla og heilsugæslu,“ segir Sy. Hundruð þúsunda eru á hrakhólum í löndunum þremur, flest í Mósambík, og brýnt að herða allt hjálparstarf til muna til að koma í veg fyrir enn meiri hörmungar.