Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kolbrúnu stórlega misboðið

Mynd: RÚV / RÚV

Kolbrúnu stórlega misboðið

26.03.2015 - 12:18

Höfundar

Það áttu sér stað lífleg orðaskipti í Kiljunni um nýjustu bók hulduhöfundarins Stellu Blómkvist, Morðin í Skálholti. Ljóst er að Kolbrún Bergþórsdóttir er ekki í aðdáendaklúbbi rithöfundarins.

Sigurður Valgeirsson velti þeirri spurningu upp hvort Kolbrún væri sjálfur höfundur bókanna. Kolbrún brást ókvæða við: „Mér er stórlega misboðið, ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið móðguð jafn skelfilega og núna.“

Kolbrún dró ekki dul á álit sitt á bókinni. „Þetta er skelfilega vont ... Að lesa þetta var eiginlega þraut og pína,“ sagði hún, og bætti við: „Stella Blómkvist er einhver mesta leiðindaskjóða sem ég hef nokkurn tímann lesið. Hún er gjörsamlega óþolandi … Þetta var algjör tímaeyðsla. Ég get ekki mælt með þessu við nokkurn mann. Ég varð ofboðslega reið þegar ég var búin að lesa þetta.“

Sigurði fannst Kolbrún taka bókina of alvarlega og þótti bókin vera hin sæmilegasta, samanborið við það sem gengur og gerist í öðrum glæpasögum. „Maður getur alveg deilt um hvort eitthvað hafi getað gerst og ekki en ég sé ekki neinn stórkostlegan mun á þessari bók og mörgum öðrum sakamálasögum.“ Sigurði fannst bókin bera þess merki að jafnvel annar höfundur hefði tekið við penna Stellu. „Þetta er nokkuð flókin saga … Mér finnst þetta stærri bók og velti því fyrir mér hvort þetta væri kannski nýr höfundur.“