
Choung Lei Bui hefur verið hérlendis síðustu tvö árin að læra til kokks. Hún fékk tímabundið dvalarleyfi til að stunda námið og fékk það framlengt í fyrstu. Nú virðist hún hins vegar þurfa að hverfa af landi brott fyrir mánaðamót. Ástæðan er sú að þegar útlendingalög voru samþykkt á Alþingi í fyrra breyttust lögin í þá veru að iðnnám var ekki lengur tiltekið sem nám sem veitti rétt til dvalarleyfis. Eftir breytinguna gátu erlendir námsmenn aðeins fengið dvalarleyfi til náms á háskólastigi. Útlendingastofnun synjaði því beiðni hennar um framlengingu dvalarleyfisins.
Ráðherra taldi mistök hafa verið gerð við lagasetningu
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í fréttum RÚV í síðasta mánuði að hún teldi að mistök hefðu verið við lagasetninguna. Það hefði gerst án þess að umræða um slíkt færi fram. Sigríður sagði þá að þessu þyrfti að kippa í liðinn með lagabreytingu þegar þing kemur saman á ný.
Choung Lei Bui kærði ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja dvalarleyfisbeiðni til kærunefndar útlendingamála. Niðurstaða hennar eins og Útlendingastofnunar var að í lögum væri ekki ákvæði um að iðnnám veitti rétt til dvalarleyfis. Því fengi hún ekki dvalarleyfi. Í kærunni til kærunefndarinnar var sérstaklega tekið fram að líklega hefði iðnnám verið fellt út úr lögunum fyrir mistök og vísað til þess að í lögskýringargögnum væri hvergi vikið að því að þessi breyting stæði til. Ekki er vikið að þeim hugsanlegu mistökum í úrskurði nefndarinnar en vísað til þess að samkvæmt núgildandi lögum uppfylli kokkanámið ekki skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Þar breytir engu þó dvalarleyfið hafi verið endurnýjað einu sinni eftir að lögunum var breytt.
Úrskurður kærunefndar útlendingamála er dagsettur 14. nóvember. Lögum samkvæmt verða útlendingar að hverfa af landi brott ekki síðar en fimmtán dögum eftir uppkvaðningu úrskurðarins.