Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kokkalandsliðið vann til tvennra gullverðlauna

25.11.2018 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenska kokkalandsliðið vann í morgun til gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg. Liðið vann verðlaunin fyrir matreiðslu á heitum mat. Í liðinu í morgun voru sex kokkar sem matreiddu þriggja rétta máltíð fyrir 110 manns. Í forrétt var þorskur, lambakjöt í aðalrétt og skyr og súkkulaði í eftirrétt.

„Við erum gríðarlega ánægð með þennan árangur enda búið að vinna að undirbúningi í 18 mánuði og þrátt fyrir nokkrar óvæntar uppákomur þá höfum við sýnt það og sannað hér í dag að Íslenska kokkalandsliðið er eitt það besta í heimi," er haft eftir Birni Braga Bragasyni, forseta klúbbs matreiðslumeistara í tilkynningu frá kokkalandsliðinu.

Í gær vann Danis Shramko til gullverðlauna í sykurgerðarlist. Liðið hefur nú lokið keppni. Það keppti í tveimur greinum og vann til gullverðlauna í þeim báðum. 

Mest er hægt að fá 100 stig í keppninni og ef lið fær 91 til 100 stig fær það gullverðlaun. Fleiri en ein þjóð geta því unnið til gullverðlauna í sömu grein. Fyrir 81 til 90 stig fá lið silfurverðlaun og svo framvegis.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir