Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Klósettum í Bankastræti breytt í pönksafn

07.09.2016 - 19:46
Mynd:  / 
Almenningssalernið Núllið í Bankastræti í Reykjavík fær nýtt hlutverk á næstunni, þar sem opna á pönksafn. Besti staðurinn undir slíka starfsemi, segja aðstandendur safnsins.

Núllið í Bankastræti var fyrst opnað sem almenningssalerni fyrir Alþingishátíðina 17. júní árið 1930. Þar var rekið salerni allt til ársins 2006 þegar því var lokað. Síðan þá hefur engin starfsemi verið í rýminu, nema í fyrra þegar þar var myndlistarsýning til skamms tíma. Nú hefur hins vegar fjögurra manna hópur tekið þetta þekktasta salerni landsins á leigu, og stefnir hann að því að opna þar safn innan tveggja mánaða.

„Hugmyndin er að búa til pönksafn sem fer yfir sögu pönksins og þann tíðaranda sem var þá,“ segir Guðfinnur Sölvi Karlsson, einn aðstandenda.

Hvers vegna á þessum stað?

„Þetta er besti staðurinn sem hægt er að hafa svona safn á. Þetta er ekkert listasafnskjaftæði, þetta er bara klósett. Þetta er pönk,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunni, sem stendur einnig að safninu.

Tíðarandasýning

Safnið hefur hlotið nafnið Pönksafn Íslands. Auk Guðfinns og Gunnars standa þau Axel Hallkell Jóhannesson og Þórdís Claessen að verkefninu. Salernin eru sitt hvoru megin Bankastrætis en safnið verður í rýminu sem er sunnanmegin við götuna.

„Þetta verður hylling til þeirrar tónlistar sem bjó til jarðveginn sem við erum núna að uppskera úr,“ segir Gunnar.

Og þið ætlið eitthvað að leita til almennings eftir aðstoð ekki satt?

„Jú við erum á fullu að því núna að hafa samband við fólk sem á muni sem tengjast þessari sögu. Ljósmyndir úr partýum, þetta er líka tíðarandasýning.“

„Þú getur ekki sleppt Bubba og Fræbblunum og svo framvegis þegar þú ert að búa til svona safn þannig að við þurfum að leita út um allt til að finna sem mest efni fyrir svona safn. Gamli pönkarinn var ekkert mikið að setja þetta í myndaalbúm. Þannig að það þarf að leita vel,“ segir Guðfinnur.

Stefnt er að því að opna safnið í byrjun nóvember, í sömu viku og Iceland Airwaves tónlistarhátíðin fer fram.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV