Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Klofningur yfirvofandi í dönsku kirkjunni

16.06.2012 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Harðar deilur hafa blossað upp innan dönsku kirkjunnar. Fimmtíu prestar á Fjóni ætla síðar í dag að stofna nýtt embætti í trássi við biskup umdæmisins. Ástæðan er andstaða prestanna við giftingar samkynhneigðra.

Það er ekki beinlínis góð spretta í kristilegu kærleiksblómunum á Fjóni þessa dagana. Í gær tóku gildi í Danmörku lög sem heimila kirkjubrúðkaup samkynhneigðra. Þessi lög höfðu verið lengi í undirbúningi og um þau risu miklar deilur, ekki síst um orðið ægtefælle, maki. Margir prestar eru andsnúnir lögunum og neita að gifta samkynhneigða. Sóknarprestar geta samkvæmt nýju lögunum neitað að gifta samkynhneigð pör. Þá skal prófastur eða biskup útvega prest til að annast vígsluna.

Prestlegur leiðbeinandi í stað biskups

Nú hefur hópur um það bil 50 presta á Fjóni sem eru andsnúnir lögunum ákveðið að stofna nýtt embætti, sem þeir nefna prestlegan leiðbeinanda. Hann á, fyrir þennan hóp, að koma í stað biskups, og verða trúarlegur leiðtogi hópsins. Til stóð að setja leiðbeinandann í embætti í Óðinsvéum í dag en biskupinn á Fjóni bannaði að slíkt yrði gert. Engin lög heimiluðu stofnun þessa nýja embættis. Prestarnir hafa nú tilkynnt að leiðbeinandinn verði nú síðdegis settur í embætti í kirkjunni í Løsning á Suðaustur-Jótlandi.

Prófessor í trúarbragðafræði við Kaupmannahafnarháskóla segir í blaðaviðtali í dag að þessar deilur geti reynst dönsku þjóðkirkjunni erfiðar og í versta falli leitt til klofnings innan hennar.