Klausturmálið í erlendum miðlum

06.12.2018 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Klausturmálið hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og er fjallað um málið í fjölmiðlum á Norðurlöndunum, BBC og New York Times.

Fjölmiðlar á Norðurlöndunum hófu að fjalla um mál þingmannanna sex úr Miðflokknum og Flokki fólksins fljótlega eftir að málið kom fyrst upp, og má þar nefna til dæmis Norska ríkisútvarpið NRK og Sænska ríkisútvarpið SVT. Báðir miðlarnir nota mynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem var einn af þingmönnum sex á Klaustri, með fréttum sínum. Það gerir líka New York Times í dag

Í þeirri grein gætir þó misskilnings því Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, er þar sögð vera ráðherra. Í greininni er sagt frá því að samtalið hafi staðið í yfir þrjár klukkustundir og að þingmennirnir hafi drukkið bjór. Sérstaklega er í greininni tekið til umfjöllunar að Íslendingar séu stoltir af því að hafa náð efst á lista World Economic Forum's gender gap index í fyrra fyrir stöðu mála í jafnréttismálum. Þá er sömuleiðis nefnt að hér hafi verið sett í lög að fyrirtæki skuli geta sýnt fram á að þar séu borguð laun óháð kyni, en þar er átt við jafnréttisvottun. Nafn Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, kemur einnig við sögu í greininni og talað um að hann hafi til þessa verið þekktur fyrir að tala fyrir auknum réttindum kvenna. NRK hafði einnig fjallað um þátt Gunnars Braga í samhengi við hans þátt í rakarastofuráðstefnunni í Sameinuðu þjóðunum í New York fyrir þremur árum. 

Breska ríkisútvarpið BBC fjallaði um málið á mánudag og sagði íslenskt samfélag vera í áfalli. Í þeirri frétt er mótmælunum á Austurvelli á laugardag einnig gerð skil. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV