Klausturmálið hafi áhrif á trúverðugleikann

07.12.2018 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Klausturmálið hefur haft áhrif á trúverðugleika Íslendinga sem boðbera jafnréttis á alþjóðavettvandi. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, sem hefur verið spurð um málið á þingi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn.

„Já það hafa nokkrir komið til okkar í íslensku sendinefndinni með svona glott á vör og spurt hvað sé nú að frétta af enn einum skandalnum á Íslandi. Þetta er ekki skemmtileg reynsla,“ segir Drífa.

Þú segir að þú teljir að málið hafi haft áhrif á trúverðugleika Íslendinga sem boðbera jafnréttis á alþjóðavettvangi - hvernig finnst þér það birtast?

„Það hefur gert það. Í raun og veru þá missir maður svolítið sjálfstraustið á alþjóðavettvangi að vera að tala um jafnréttismál þegar staðan er svona hjá okkur. Og maður verður var við það að fólk heldur að við séum komin lengra í jafnréttismálum heldur en nýjustu fréttir gefa til kynna,“ segir Drífa.