Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Klausturfólkið geti hlotið endurkosningu

Mynd: RÚV / RÚV
Dósent í fjölmiðlafræði segir ekki öll kurl komin til grafar í Klaustursmálinu. Hann telur að málið muni róast innan tíðar og þegar fram í sækir muni það ekki vera þetta stórmál sem það er í dag. Haldi fólkið sem um ræðir rétt á spilunum, geti þau endurnýjað umboð sitt í næstu kosningum.

Sambærilegt öðrum hneykslismálum undanfarin ár

Birgir Guðmundsson, fjölmiðla- og stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, segir Klausturmálið að mörgu leyti sambærilegt öðrum hneykslismálum undanfarin ár. Hann nefnir þar Panamaskjölin, málefni föður Bjarna Benediktssonar, erfiðleika Bjartrar framtíðar og fleira. Þau mál hafi þó ekki staðið upp úr í kosningabaráttu flokkanna eða í kosningum. 

Næðu ekki inn manni samkvæmt könnun

Fréttablaðið birti skoðanakönnun í morgun sem var gerð 3. og 4. desember. Þar er Miðflokkurinn með 4,3 prósenta fylgi, þriðjung þess sem hann hlaut í kosningunum, og næði þar með ekki inn manni. Flokkur fólksins mælist með meira fylgi, 5,7 prósent. 

Birgir telur að þegar Klausturmálið róast, geti fólkið sem um ræðir áfram sótt sér ákveðinn atkvæðafjölda. Miðflokksþingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir ætla að halda áfram á þingi, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason eru farnir í leyfi, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason starfa nú utan flokka eftir að hafa verið reknir úr Flokki fólksins.

Jafnvel þó að það sé búið að stimpla sig inn með ákveðinn plebbískan hugsunarhátt, þá mun það sækja ákveðinn atkvæðafjölda og getur hugsanlega endurnýjað umboð sitt í næstu kosningum.”

Birgir var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Í öllum hinum tilfellunum líða aðeins nokkrir mánuðir og þá er kosið. Í umræðunni verður þetta undir öðrum atriðum. Það er í raun engin ástæða til þess að ætla að þetta mál verði öðruvísi, þó að það geti orðið það. Það ræðst af viðbrögðum.”

Pólitískur og siðferðislegur skellur

Hann segir mörg vafaatriði óljós í málinu ennþá, þó að það sé vissulega pólitískur og siðferðislegur skellur fyrir þá sem um ræðir. Átta prósent Alþingis sé búið að stimpla sig inn sem það sem maður mundi kalla plebba í daglegu tali, en þó sé alls óvíst hvort siðanefnd Alþingis muni komast að þeirri niðurstöðu að þau hafi brotið siðareglur, það sé háð miklum túlkunaratriðum. 

„Ég er ekki viss um að það sé auðvelt fyrir siðanefndina að fella stóra dóma. Það þarf talsverða túlkun á einstaka greinum reglnanna að ná utan um þetta. Það er ýmislegt sem á eftir að flækja málin og fletja það út. Ég vona að þetta verði ekki liðið, en siðanefndin þarf að skoða þetta varðandi virðingu Alþingis.”

Gefur vísbendingu um hugsunarhátt spillingar

Varðandi sendiherraumræður Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar umrætt kvöld segir Birgir einkennast af karlagrobbi og menn séu að reyna að slá sig til riddara með því að vera voða merkilegir karlar á bar, án þess að það sé endilega hægt að taka mikið mark á því.

„Það hefur ekki myndast neinn samningur á milli Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins um þessa sendiherrastöðu, sem síðan væri, eins og sumir vilja meira, hægt að sækja fyrir lögum. En vissulega er þetta vísbending um hugsunarhátt spillingar.”

Hægt er að hlusta á viðtal Sunnu Valgerðardóttur við Birgi hér að ofan.