Klassíkin okkar: Pílagrímakórinn

Mynd: RÚV / RÚV

Klassíkin okkar: Pílagrímakórinn

01.09.2017 - 19:16

Höfundar

Pílagrímakórinn úr Tannhäuser eftir Richard Wagner.

Flytjendur: Karlar úr Kór íslensku óperunnar, Óperukórnum í Reykjavík, auk Karlakórs Kópavogs. 

Fyrir mörgum er tónlist Richards Wagner (1813–1883) hápunktur óperuhefðarinnar og er tónskáldinu þá oftar en ekki stillt upp gagnvart hinum ítalska Verdi. Í það minnsta komu saman í verkum Wagners allir þeir þræðir sem skipta máli í þessu merka listformi og tónskáldið vildi halda um sem flesta þeirra sjálfur. Áhrif Wagners á tónlistarsöguna eru gríðarleg en einnig má finna dæmi um þau í fjölmörgum öðrum listgreinum. Úr óperunni Tannhäuser, sem byggð er á fornum þýskum sögnum um ástir og örlög farandsöngvara, kemur eitthvert glæsilegasta kóratriði tónbókmenntanna, Pílagrímakórinn. Kórinn er lofgjörð til Drottins en hvorki dauði né heljarvist skelfa hina sanntrúuðu. Sigurinn er í nánd og tónlistin túlkar þá von fullkomlega.

Í vor gafst almenningi færi á að kjósa sér draumaóperutónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og fór kosningin fram á vef RÚV. Nú er komið að því að hljómsveitin leiki verkin sem flest atkvæði hlutu í sannkallaðri óperuveislu í beinni útsendingu úr Eldborgarsal Hörpu. Er sýningin unnin í samstarfi við Íslensku óperuna.